Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Almannatryggingar (aldursviðbót, tenging við launavísitölu og söfnun upplýsinga)

By 10. mars 2025mars 14th, 2025No Comments
Eldri maður á gangi í garði með leiðsöguhund

ÖBÍ réttindasamtök fagna þeim áformum ráðherra félagsmála sem hér eru til umsagnar og lýst hefur verið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Um er að ræða mikilvæg og tímabær skref í þá átt að rétta hlut örorkulífeyristaka á Íslandi. ÖBÍ gerir eftirfarandi athugasemdir við drögin að frumvarpinu. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins. Silkin er réttur til að koma að koma að frekari athugasemdum síðar gerist þess þörf.

Breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar um aldursviðbót

ÖBÍ lýsa yfir stuðningi við áform ráðherra félagasmála um að bundið verði í lög að aldursviðbót á lífeyri örorkulífeyristaka haldist ævilangt. Samkvæmt núgildandi lögum missa örorkulífeyristakar aldursviðbótina við 67 ára aldur. Breytingin er til þess fallin að bæta stöðu fjölda fólks sem vegna langvinnra veikinda, slysa eða fötlunar ná ekki eða aðeins takmarkað að ávinna sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.

Í 3. kafla greinargerðar frumvarpsdraganna má finna umfjöllun um hvaða hópar örorkulífeyristaka munu eiga rétt á aldursviðbót til viðbótar við ellilífeyri verði frumvarpið að lögum. Annars vegar séu það þau sem þegar eru komin á ellilífeyri, en uppfylltu á fyrri tíð það skilyrði að hafa verið metin til a.m.k. 75% örorku fyrir 44 ára aldur. Hins vegar séu það þau sem hefja munu töku ellilífeyris eftir að greiðsluflokkurinn kemur til framkvæmdar og uppfylla á því tímamarki skilyrði fyrir greiðslu nýs örorkulífeyris eða hlutaörorkulífeyris.

Ljóst er að ýmsir hópar sem rétt eiga á aldursviðbót í núverandi almannatryggingakerfi munu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri samkvæmt drögunum.

ÖBÍ hvetur til þess að gætt verði jafnræðis og sanngirni við útfærslu frumvarpsins og tryggt verði að þeir sem þurfi á viðbótinni að halda njóti hennar. Ljóst er að þeir sem eiga rétt á aldursviðbót í núverandi kerfi en fengu örorkumat 44 ára eða eldri munu að óbreyttu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri. Samkvæmt núverandi kerfi eiga þeir sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri rétt á aldursviðbót. Það mun ekki eiga við eftir 1. september 2025 samkvæmt lagafrumvarpi: Breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga | Þingtíðindi.

Þau sem hefja töku ellilífeyris og hafa verið á endurhæfingarlífeyri en ekki fengið örorkumat munu því að óbreyttu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri.

Breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar um tengingu fjárhæða lífeyrisgreiðslna við launavísitölu

ÖBÍ lýsa yfir stuðningi við áform ráðherra félagsmála um stöðvun kjaragliðnunar. Samtökin hafa talið núverandi framkvæmd á 62. gr. laga um almannatryggingar2 (áður 69. gr.) ólöglega. (62. gr. laganna er svohljóðandi: „Greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæð skv. 28. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“).

Sá hluti ákvæðisins er varðar tengingu við verðlag er nokkuð skýr, þ.e. að vísitala neysluverðs ráði ef verðlag hækkar meira en laun. Að mati ÖB hafa fjármálaráðuneytið og Alþingi til þessa farið frjálslega með þann hluta ákvæðisins sem snýr að launaþróun. Fjármálaráðuneytið hefur skýrt hugtakið launaþróun þannig að hægt sé að taka út úr því ákveðna þætti eftir því hvernig staðan er hverju sinni, t.d. hefur það átt við um launaskrið. Hvað þetta varðar vill ÖBÍ benda á að á heimasíðu Hagstofu Íslands kemur skýrt fram að mánaðarleg launavísitala mæli mánaðarlegar breytingar á reglulegum launum á íslenskum vinnumarkaði og sýni almenna launaþróun [Laun og tekjur – Hagstofa Íslands]. 

Frá því að ákvæði 62. gr. laganna var innleitt hefur launa- og/eða verðlagsvísitala yfirleitt hækkað meira en spár í fjárlögum hafa gert ráð fyrir. Núverandi framkvæmd ákvæðisins hefur haft í för með sér að lífeyrir almannatrygginga hefur dregist verulega aftur úr launaþróun. Þar með hafa þeir sem byggja afkomu sína á lífeyri almannatrygginga dregist aftur úr öðrum tekjuhópum. Uppsöfnuð kjaragliðnun frá árinu 1997 er um 75,5% eins og sjá má í viðauka.

Breytingatillaga frumvarpsdraganna felst í að orðinu “launaþróun” í 2. ml. 62. gr. laganna verði breytt í “launavísitölu”. ÖBÍ bendir á að eftir sem áður mun ákvæðið kveða á um að breytingar verði gerðar á grundvelli „ákvörðunar“ og að breytingar skuli „taka mið af“ launavísitölu. Ljóst er þó að markmiðið með breytingatillögunni er að greiðslur og upphæðir skuli fylgja launavísitölu. ÖBÍ telur að gera þurfi frekari breytingar á ákvæðinu til að tryggja að markmiðum tillögunnar verði náð sem og tryggja að breyting verði á núverandi framkvæmd. Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um að breytingar á upphæðum og greiðslum skuli fylgja launavísitölu. Séu áform um að heimilt verði að útfæra framkvæmd breytinga lífeyris nánar í reglugerð leggur ÖBÍ áherslu á að slíkri heimild verði markaður rammi í lögum sem tryggir að markmiðum um að stöðva kjaragliðnun verði náð.

ÖBÍ leggur sem fyrr áherslu á að ákvæði um breytingar á lífeyri sé skýrt og tryggi fyrirsjáanleika og gegnsæi. Í því felst meðal annars að ljóst sé hvaða vísitölu átt sé við og hvert viðmiðunartímabilið sé. Af umfjöllun í 3. kafla greinargerðar með frumvarpsdrögunum, neðst á bls. 4, virðist sem gert sér ráð fyrir almennri launavísitölu miðað við gildi launavísitölu í desember ár hvert í stað þess að miða við undan liðna 12 mánuði. ÖBÍ telur að kveða verði skýrar á um tilgreiningu vísitölu og viðmiðunartíma í frumvarpinu. Að mati ÖBÍ er réttara verklag að styðjast við meðaltal gilda launavísitölu fyrir allt árið í stað einstakra mánaða sem breytir gildum fyrir launavísitölu.

Fram kemur í frumvarpinu „að ákvarðanir um launa- og verðlagshækkanir bóta/lífeyris almannatrygginga séu gerðar í fjárlögum hvers árs og byggi á spá um efnahagsþróun og séu því hækkanir byggðar á væntum breytingum næsta árs. Einnig byggir sú ákvörðun á útkomu yfirstandandi árs í samanburði við síðustu fjárlög. Þannig er hækkun 1. janúar skv. fjárlögum hvers árs samsett úr þróun fyrra árs og spá um efnahagshorfur fjárlaga“. Fjárlög fyrir árið 2025 voru samþykkt á Alþingi í desember árið 2024.

Endanlegar mælingar á vísitölu neysluverðs fyrir árið 2024 liggur fyrir í fyrsta lagi mánaðarmótin janúar/febrúar 2025. Hvað launavísitölu varðar, liggur endanlegt mat á þróun hennar árið 2024 fyrir í kringum mánaðarmótin febrúar/mars 2025. Því gæti verið frávik frá spá um hækkun bóta/lífeyris og raunhækkana á vísitölu neysluverðs annars vegar og hins vegar á launavísitölu. Að mati ÖBÍ skýrir frumvarpið ekki hvernig þeirri áskorun er mætt, gerist það að hækkun lífeyris/bóta almannatrygginga samkvæmt fjárlögum er lægri en raunveruleg mæling á vísitölu neysluverðs og launavísistölu sem liggur fyrir tveimur til þremur mánuðum seinna.

Að lokum vill ÖBÍ koma á framfæri ábendingu um villu í tölulegum forsendum frumvarpsins. Í töflunni hér að neðan, sem er að finna í skjali um frummat á áhrifum lagasetningar, er sýndur munur á hækkunum almannatrygginga og launavísitölu. Í töflunni kemur fyrir röng tala fyrir árið 2022. Það ár hækkuðu bætur/lífeyrir almannatrygginga samtals um 8,6% en ekki 7,6% eins og fram kemur í töflunni. Bætur/lífeyrir almannatrygginga hækkaði 1. janúar 2022 um 5,6% og hækkaði aftur 1. júní 2022 um 3% eða samtals 8,6%.

Taflan inniheldur tölulegar upplýsingar um launavísitölu, hækkun bóta almannatrygginga og mismun þeirra á árunum 2016-2024. Hún hefur fyrirsagnir fyrir hvert ár ásamt meðaltali yfir tímabilið 2016-2024. Fyrsta röðin sýnir launavísitölu í desember (nóvember 2024 fyrir síðasta dálkinn) gefna í prósentum fyrir hvert ár. Önnur röðin sýnir prósentuhækkun bóta almannatrygginga á hverju ári. Þriðja röðin sýnir mismun á milli launavísitölu og hækkunar bóta almannatrygginga. Fjórða röðin sýnir mismun þegar launavísitala er hæst. Árið 2022 hefur rauðan hring utan um gildið 7,6% í röðinni "Hækkun bóta almannatrygginga". Meðaltalsgildi fyrir tímabilið 2016-2024 eru einnig sýnd. Hæsta launavísitala á tímabilinu er 12,4% árið 2022, á meðan meðaltal launavísitölu yfir öll árin er 5,9%. Meðaltal hækkunar bóta almannatrygginga er 5,6%, meðaltal mismunar er -1,1% og meðaltal mismunar þegar launavísitala er hæst er -1,6%. Taflan sýnir að hækkun bóta hefur almennt verið lægri en launavísitala, nema á einstaka árum.Taflan er úr skjalinu:  Mat á áhrifum lagasetningar – sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 24. febrúar 2023

Gildistaka laganna

Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skal 1. gr. um aldursviðbót taka gildi 1. janúar 2026. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins í greinargerð eru gefnar skýringar á dagsetningum gildistöku 2. og 3. gr. frumvarpsdraganna en að lokum segir að greinin þarfnist ekki skýringa að öðru leyti. Að mati ÖBÍ þarfnast það skýringa hvers vegna 1. gr. tekur ekki gildi 1. september 2025 heldur 4 mánuðum síðar. Samtökin kalla eftir því að upplýst verði um skýringar þess hið fyrsta.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Almannatryggingar. Aldursviðbót, tenging við launavísitölu og söfnun upplýsinga í tölfræðilegum tilgangi
Mál nr. S-47/2025. [Drög að frumvarpi til laga]. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 10. mars 2025


 

Viðauki

Tafla sem lögð var fram í þingskjali nr. 111 í þingmáli nr. 111, 154. löggjafarþingi 2023-2024, uppreiknað til desember 2024 með uppfærðum tölum fyrir árið 2022, 2023 og 2024. [Myndlýsing á töflu í „Alt text]

Myndlýsing: Taflan sýnir breytingar á launum, verðbólgu og örorkulífeyri frá árinu 1998 til 2024 og ber saman við hækkun grunnlífeyris hvers árs. Hún inniheldur fimm breytur: launaþróun, verðbólgu, hækkun örorkulífeyris, mismun á milli launaþróunar og örorkulífeyris og hlutfall kjargliðnunar. Árin 1998 til 2000 sýnir taflan að launahækkanir voru á bilinu 6,65 til 9,37 prósent. Hækkun örorkulífeyris var þá lægri, eða á bilinu 4 til 11,28 prósent. Verðbólga var lág á þessum tíma og hækkaði úr 1,66 prósentum í 5,01 prósent árið 2000. Hlutfall kjaragliðnunar, sem gefur til kynna hversu mikið örorkulífeyrir hefur hækkað í samanburði við laun, var á þessum árum á bilinu 64,5 til 76 prósent. Á árunum 2001 til 2008 var launaþróun sveiflukennd, frá 4,68 prósentum upp í 11,37 prósent árið 2006. Á sama tíma hækkaði örorkulífeyrir oftast minna en laun, nema árið 1999 og 2006 þegar hækkun hans var meiri en launaþróun. Verðbólga var á þessu tímabili breytileg en hækkaði sérstaklega mikið árið 2008, þegar hún fór í 12,42 prósent. Kjaragliðnun lækkaði á þessum árum úr 74,9 prósentum árið 2000 niður í 46,4 prósent árið 2008. Árin 2009 og 2010 var verðbólga áfram há, eða 11,99 og 5,40 prósent, en launahækkanir minni en á fyrri árum, sérstaklega árið 2009 þegar þær voru 3,94 prósent. Hækkun örorkulífeyris var 9,60 prósent árið 2009 en engin árið 2010. Kjaragliðnun á þessum tveimur árum var á bilinu 36,4 til 39,7 prósent. Á árunum 2011 til 2019 hélst launaþróun yfirleitt á bilinu 4,89 til 11,37 prósent en hækkun örorkulífeyris á bilinu 2,90 til 9,70 prósent. Verðbólga var lægri en á fyrri árum og hélst oftast undir 4 prósentum, nema 2012 þegar hún var 5,19 prósent. Kjaragliðnun lækkaði áfram og var 13 prósent árið 2019. Á tímabilinu 2020 til 2024 voru launahækkanir að mestu á bilinu 6,32 til 10,70 prósent, nema árið 2024 þegar þær voru 5,90 prósent. Verðbólga hækkaði verulega árin 2022 og 2023 og var þá 9,60 og 7,24 prósent. Árið 2024 var hún 4,90 prósent. Hækkun örorkulífeyris var hæst árið 2022, eða 8,77 prósent, en lækkaði í 5,60 prósent árið 2024. Kjaragliðnun var lægst á tímabilinu 2022 til 2024, á bilinu 0,3 til 3,6 prósent. Taflan sýnir þannig þróun þessara þátta yfir langt tímabil, þar sem breytingar á launum, verðbólgu og hækkun örorkulífeyris hafa verið mismiklar á ólíkum tímum.