Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum (viðbrögð við lyfjaskorti o.fl.)

By 21. febrúar 2025No Comments
Lyf-

ÖBÍ réttindasamtök fagna þeim áformum heilbrigðisráðherra að draga úr lyfjaskorti í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum og styður framgang þess. Lyf eru mörgu fötluðu fólki og endurhæfingar- og örokulífeyristökum lífsnauðsynleg vegna sjúkdóma sinna og skortur á þeim grafalvarlegt mál.

Frumvarpinu er ætlað að auka getu Lyfjastofnunar til að takast á við lyfjaskort. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er „skortur á lyfjum er vaxandi ógn við lýðheilsu sem grefur undan rétti sjúklinga til að fá aðgang að viðeigandi læknismeðferð.“ Því er nauðsynlegt að Lyfjastofnun hafi allar heimildir til að bregðast við lyfjaskorti, til að lágmarka áhrif skorts á heilsu fólk. ÖBÍ styður allar aðgerðir til að draga úr lyfjaskorti og þar með lágmarka þau áhrif sem lyfjaskortur hefur í för með sér fyrir sjúklinga.

ÖBÍ styður framkomnar tillögur um viðbrögð við lyfjaskorti, sem Lyfjastofnun er heimilt að grípa til, og eru tilgreindar fjórar leiðir til þess. Eftirfarandi tillögu styður ÖBÍ heilshugar en hana er að finna í nýrri grein (32. gr. a.) sem áform eru um að setja í Lyfjalög: „stýra og/eða takmarka afgreiðslu og afhendingu lyfja við ákveðna sjúklingahópa, ákveðna aldurshópa eða sjúkdómsástand sjúklinga samkvæmt áhættumati“.

1. Undanþágulyf

Í frumvarpinu eru svokölluð undanþágulyf skilgreind betur, m.a. að ekki eigi að gefa lyfi undanþágu sem hefur nú þegar markaðsleyfi á Íslandi, en hafa ekki verið markaðssett hér á landi.

2. Greiðsluþátttaka í lyfjum

Í frumvarpinu er fjallað um greiðsluþáttttöku á lyfjum og ferli um greiðsluþátttöku verði einfaldað og komið í veg fyrir tvíverknað við vinnslu greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingastofnun og Lyfjastofnun.

Að auki fagnar ÖBÍ þeim áformum að í frumvarpinu er opnað á heimild til að veita einstaklingum greiðsluþátttöku í lyfjum sem hafa ekki markaðsleyfi hér á landi eða svokölluð undanþágulyf, sem hingað til hafa verið án greiðsluþátttöku. Þessi aðgerð styrkir stöðu fatlaðs fólks og lífeyristaka hvað varðar aðgengi að nauðsynlegum lyfjum.

3. Lokaorð

Ítrekaður er stuðningur ÖBÍ réttindasamtaka við framkomið frumvarp frá heilbrigðisráðherra. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
Formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
Stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum

Gunnar Alexander Ólafsson
Hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtökum


Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum (Viðbrögð við lyfjaskorti o.fl.)
Mál nr. S-25/2025. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 21. febrúar 2025