ÖBÍ réttindasamtök og Vinnumálastofnun stóðu með Mannauð, Félagi mannauðsfræðinga, að sameiginlegum fundi í vikunni. Var þar farið yfir fjölbreyttari vinnumarkað og aukna atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
Á fundinum fluttu erindi Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðingur ÖBÍ og Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.
Þau sögðu frá því að haustið 2025 taka gildi breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér aukna atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Aukin atvinnuþátttaka þessa hóps kallar á fjölgun hlutastarfa á vinnumarkaði. Með tilkomu breytinganna á örorkulífeyriskerfinu er gert ráð fyrir því að fleira fólk, sem m.a. býr yfir sérfræðiþekkingu en hefur vegna slysa eða sjúkdóma horfið af vinnumarkaði og misst hluta af starfsgetu sinni, leiti aftur út á vinnumarkaðinn. Til þess að mæta þeim breytingum er brýnt að fjölga hlutastörfum á vinnumarkaði.
Á fundinum var sagt frá Unndísi sem er verkfæri og leiðarvísir með innbyggðu matskerfi sem styður við innleiðingu á inngildandi vinnustaðamenningu að teknu tilliti til fólks með mismikla starfsgetu. Markmið Unndísar er að styðja með afgerandi hætti við fyrirtæki með ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgd svo fjölgun hlutastarfa verði að veruleika.
Fundurinn var vel sóttur og þakka ÖBÍ og VMST félagsfólki í Mannauði fyrir áhugann.