Þegar dagurinn er stuttur er gott að snjórinn lýsir upp skammdegið. Hann erfiðar þó yfirferð og hvít hulan leggst yfir merkingar sem eiga að leiðbeina okkur í daglegu lífi.
Fólk með hreyfihömlun er háð því að umferðarleiðir séu hindrunarlausar svo að það komist milli staða. Það vill oft gleymast í þeim aðstæðum þegar ófatlað fólk getur komist á áfangastað án teljandi óþæginda.
Í byggingarreglugerð segir að aðkoma á lóð að byggingum sem falla undir ákvæði um algilda hönnun eigi að vera greiðfær, greinileg og ekki skapa hætta fyrir vegfarendur. Merkingar skuli vera skýrar, greinilegar og auðlesnar. Hindrunarlaus leið skuli vera frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi byggingar.
Það á við um allar byggingar sem eru ætlaðar almenningi og hýsa meðal annars verslanir, veitingastaði, menntastofnanir, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
Þessar kröfur eiga líka við á veturna. Réttindi fólks til að lifa sjálfstæðu lífi takmarkast ekki við ákveðinn árstíma.
Í reglugerðinni segir að þar sem því verður komið við með hagkvæmum hætti skuli aðalgönguleiðir vera upphitaðar. Af þessu verður að draga þá ályktun að þar sem því verður ekki komið við sé gerð krafa um að gönguleiðirnar, þ.á.m. bílastæði hreyfihamlaðra, séu ruddar og mokaðar til að tryggja hindrunarlausa aðkomu fyrir fatlað fólk.
Ef það er ekki gert er leiðin ekki aðeins illfær heldur hverfa einnig merkingar sem afmarka bílastæði og gönguleiðir undir snjóinn. Oft á tíðum vantar skilti til að merkja bílastæði hreyfihamlaðra og við það verða þau sjálfkrafa að bílastæðum fyrir hvern sem er.
ÖBÍ réttindasamtök hvetja hér með alla aðila með rekstur sem ætlaður er almenningi til að moka vel gönguleiðir og standa þannig með réttindum fatlaðs fólks til að lifa eðlilegu lífi.