Skip to main content
AðgengiFréttMálefni barna

Festa kaup á íþróttahjólastólum til að fjölga tækifærum fatlaðra barna

By 13. desember 2024No Comments

Hjólastólavagn verkefnisins Allir með fer á göturnar eftir áramót en unnið er að smíði hans hjá Marel þessa dagana. Vagninum er ætlað að flytja íþróttahjólastóla á milli staða en Allir með er einmitt samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) og miðar að því að fjölga tækifærum fatlaðra barna til íþróttaiðkunar.

Verkefnið er til þriggja ára og er liður í að ná markmiðum 30. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þeirri grein segir meðal annars að fatlað fólk eigi rétt til að taka þátt til jafns við aðra í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

Hvati, tímarit ÍF, fjallaði í vikunni um þau gleðitíðindi að Gunnar Karl Thoroddsen, nemi í grafískri hönnun við LHÍ, hafi borið sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni fyrir Allir með-vagninn. Hann hlýtur 150.000 kr. í verðlaun og mun hönnun hans prýða vagninn.

Fyrstu tíu íþróttahjólastólar verkefnisins voru keyptir fyrr í mánuðinum en stólarnir eru ætlaðir fyrir  börn á aldrinum 7 til 14 ára. Boðið verður upp á hjólastólakörfubolta fyrir þennan aldurshóp í upphafi næsta árs.