Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um áform um breytingar á lögum um meðferð sakamála og meðferð einkamála. Meðferð kæru- og áfrýjunarbeiðna fyrir Hæstarétti, aðgangur að gögnum hjá lögreglu og skýrslutökur á rannsóknarstigi.
Hér er veitt umsögn um þann hluta áformanna sem varða breytt fyrirkomulag dómskýrslna af börnum og brotaþolum í viðkvæmri stöðu við meðferð sakamála.
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) lýsa yfir stuðningi við áformin með vísan til tilgangs þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) skulu aðildarríki samningsins tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
ÖBÍ telur áformin geta verið til þess fallin að veita viðeigandi aðlögun málsmeðferðar fyrir fatlað fólk í mörgum tilvikum. Við vinnslu áformanna ber að hafa í huga að fatlanir eru margskonar, sbr. 1. gr. SRFF, og þarfir fatlaðs fólks persónubundnar. Meðal annars þarf að tryggja viðeigandi húsnæði og stuðningsaðila í hverju tilviki fyrir sig.
Þá leggur ÖBÍ til að fram komi að skýrslutökum af fötluðu fólki verði stýrt af aðila með sérþjálfun. Væri það í samræmi við 2. mgr. 13. gr. SRFF, en samkvæmt ákvæðinu skulu aðildarríki samningsins efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa, í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum.
Þá bendir ÖBÍ á að til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks eins og áskilið er í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ætti að vísa til fatlaðs fólks fremur en fólks í viðkvæmri stöðu. Sé ákvæðinu ætlað að ná utan um fleiri hópa en fatlað fólk væri hægt að vísa til hvors tveggja.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Áform um breytingar á lögum um meðferð sakamála og meðferð einkamála. Meðferð kæru- og áfrýjunarbeiðna fyrir Hæstarétti, aðgangur að gögnum hjá lögreglu og skýrslutökur á rannsóknarstigi
Mál nr. S-206/2024, Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 11. nóvember 2024