„Tíðir flutningar eru algengir meðal leigjenda á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Samtaka leigjenda á Íslandi frá apríl 2023 eru einungis 3% leigusamninga ótímabundnir og leigjendur flytja að jafnaði á 20–30 mánaða fresti.“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna tilgangi og markmiðum frumvarpsins. Í greinagerð frumvarpsins er m.a. fjallað um aðstæður fatlaðs fólks á leigumarkaði og það háa hlutfall ráðstöfunartekna sem örorkulífeyristakar greiða til rekstur húsnæðis.
Örorkulífeyristakar hafa lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og er staða þeirra því talsvert verri og ójafnari öðrum þjóðfélagshópum þegar horft er til þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á húsnæðismarkaði. Íbúðarhúsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara enda hluti af mannréttindum fólks að hafa þak yfir höfuðið. Aðgengi að öruggu og viðunandi húsnæði er ein af grundvallar forsendum þess að skapa velsældarsamfélag á Íslandi. Aðgengi að húsnæði eitt og sér dugar þó skammt ef byrði húsnæðiskostnaðar er of þung. Þetta á sérstaklega við um þá hópa samfélagsins sem standa hvað höllustum fæti, t.a.m. örorkulífeyristaka.
Jafnframt vilja ÖBÍ koma á framfæri eftirtöldum athugasemdum, frumvarpinu til stuðnings.
Staða fatlaðs fólks á leigumarkaði
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem kom út í desember 2023, leigja 20,5% fatlaðs fólks íbúð á almennum leigumarkaði. Staða fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði er oft erfið en 65,8% upplifa þunga byrði húsnæðiskostnaðar. Í því ljósi er vert að taka fram aðstæður fatlaðs fólks sem reiða sig alfarið á örorkulífeyri til að framfleyta sér, en sá hópur hefur lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn.
Búsetuóöryggi leigjenda og aðgengi fatlaðs fólks
Tíðir flutningar eru algengir meðal leigjenda á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Samtaka leigjenda á Íslandi frá apríl 2023 eru einungis 3% leigusamninga ótímabundnir og leigjendur flytja að jafnaði á 20–30 mánaða fresti. Sú staða bitnar allra verst á börnum með búsetu í leiguíbúðum enda ekki sjálfgefið að finna aðra íbúð í sama nærumhverfi. Sá hópur er því líklegri til að skipta oft um skóla sem getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og félagsleg tengsl.
Þá er vert að ígrunda aðstæður fatlaðs fólks á leigumarkaði sem neyðast til að flytja oft á milli leiguíbúða. Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki og óaðgengileg hönnun íbúða og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks til að komast í örugga búsetu á eigin forsendum. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að tryggja búsetuöryggi fólks á leigumarkaði. Jafnframt áréttar ÖBÍ að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er fullgildur á Íslandi og að unnið er að lögfestingu samningsins. Orðið aðgengi í sinni víðustu mynd er ein af grunnstoðum SRFF og mikilvægt að tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu, þ.m.t. að leigumarkaðinum.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Húsaleigulög (réttarstaða leigjanda íbúðarhúsnæðis og leigubremsa)
55. mál, lagafrumvarp. Velferðarnefnd Alþingis.
Umsögn ÖBÍ, 23. október 2024