Skip to main content
NPAUmsögn

Reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk

By 1. október 2024október 8th, 2024No Comments
Frá aðalfundi ÖBÍ 2024. Texti á spjaldi: VIð eigum öll jafnan rétt til sjálfstæðs lífs

Við gerð þeirra reglugerðardraga sem hér eru til umsagnar hefur ekki verið leitað samráðs eða annarrar aðkomu ÖBÍ réttindasamtaka. Að ÖBÍ vitandi á hið sama við um önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Í upplýsingum um efni draganna í samráðsgátt er vísað til skýrslu starfshóps félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um kostnaðarskiptingu í þjónustu við fatlað fólk en hagsmunasamtökum fatlaðs fólks hefur ekki verið gefinn kostur á aðild að starfshópnum.

ÖBÍ áréttar að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) kveður á um að hafa skuli virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr samningsins skulu aðildarríkin, við ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Í upplýsingum um efni draganna í samráðsgátt er vísað til SIS mats í tenglum við ákvæði reglugerðarinnar um mat á stuðningsþörf fatlaðs fólks. ÖBÍ ítrekar þá gagnrýni sína að um er að ræða matstæki sem aðeins hentar til að meta stuðningsþarfir tiltekins hluta fatlaðs fólks. ÖBÍ bendir á að til fatlaðs fólks telst mjög fjölbreyttur hópur fólks og minnir á ákvæði 2. mgr. 1. gr. SRFF um hver teljast meðal annars til fatlaðs fólks. Það er afstaða ÖBÍ að stjórnvöld skuli í fullu samráði við ÖBÍ og önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks ákvarða fyrirkomulag á mati á stuðningsþörfum fatlaðs fólks. Fyrr en niðurstaða af slíku samráði liggur fyrir telur ÖBÍ ótímabært að leggja fram tillögur að lögum eða reglum sem ætlað er að leggja drög að breyttu matskerfi. Á það m.a. við um þau reglugerðardrög sem hér eru til umsagnar. Um þessar mundir er fyrirkomulag mats á þjónustuþörf fatlaðs fólks til skoðunar hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Að mati ÖBÍ ættu ráðuneyti félagsmála og innviða að eiga með sér samtal um að samræma aðgerðir sínar sem varða þennan sama málaflokk.

Að mati ÖBÍ er alveg ljóst að sveitarfélögum ber að tryggja fötluðu fólki þá þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum, þ.m.t. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Því miður hafa sveitarfélög í fjölmörgum tilvikum ekki veitt lögboðna þjónustu eða dregið það ótæpilega á þeim grundvelli að tilskilið fjármagn hafi ekki borist frá íslenska ríkinu. Þær tillögur sem gerðar eru með reglugerðardrögunum vekja því miður ekki von hjá ÖBÍ um að á því verði breyting.

ÖBÍ lýsir stuðningi við tillögur NPA miðstöðvarinnar þess efnis að ákvæði um framlög vegna langtímaveikindi NPA aðstoðarfólks verð útvíkkað.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk
Mál nr. S-181/2024. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 1. október 2024