Skip to main content
Frétt

Öryrkjabandalag Íslands verður formlega ÖBÍ réttindasamtök

Nýafstaðinn aðalfundur ÖBÍ réttindasamtaka samþykkti að breyta nafni samtakanna endanlega úr „Öryrkjabandalag Íslands“ og staðfesta heitið „ÖBÍ réttindasamtök“. Þetta er rökrétt framhald endurmörkunar sem átti sér stað fyrir tveimur árum, vakti mikla lukku og var meðal annars tilnefnd til íslensku auglýsingaverðlaunanna.

Gamla nafnið, Öryrkjabandalag Íslands, er enn innbyggt í skammstöfunina í hinu nýja heiti. Undirtitillinn segir svo fyrir hvað við stöndum og hver tilgangur okkar er: Að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Merkið okkar og nýjar áherslur í heiti samtakanna, ÖBÍ réttindasamtök, gefa okkur bæði kraft og snerpu í breyttum heimi. ÖBÍ réttindasamtök eru afl breytinga og stuðla að betra lífi fyrir fatlað fólk. Við erum til staðar þegar tilveran snýst á hvolf eða þegar sjálfsögð réttindi okkar eru látin mæta afgangi.