ÖBÍ réttindasamtök lýsa yfir stuðningi við tillögur frumvarpsins. ÖBÍ hefur fyrr á þessu ári lýst ánægju með áform um heildstæða stefnumótun fullnustumála (Grænbók) . ÖBÍ lýsti sjónarmiðum sínum til slíkra áforma í umsögn í samráðsgátt dags. 21. júní 2024 , m.a. út frá stöðu fatlaðs fólks innan fullnustukerfisins. Það er von ÖBÍ að slík áform muni leiða til jákvæðra breyting, m.a. með aukinni áherslu á betrun og endurhæfingu innan fullnustukerfisins. Einnig að komið verði betur til móts við aðstæður fatlaðs fólks en nú er og réttindi þeirra betur tryggð.
Að mati ÖBÍ er það frumvarp sem hér er til umsagnar í anda þeirra breytinga sem samtökin telja æskilegar. Hvatar til félagslegrar virkni geta unnið geng neikvæðum afleiðingum einangrunar og annarra félagslegra vandamála einstaklinga. Í öllu falli má telja slíka hvata mannúðlegri og líklegri til að stuðla að betrun en fangelsisrefsing.
Þá bendir ÖBÍ á að tryggja verður fötluðum dómþolum jafnrétti á við aðra þegar kæmi að beitingu ákvæðisins eftir atvikum með viðeigandi aðlögun. Samkvæmt b-lið 1. mgr. Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skulu aðildarríki tryggja að fatlað fólk til jafns við aðra verði ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu. Við alla meðferð frumvarpsins ber að horfa til ákvæða samningsins.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Almenn hegningarlög (samfélagsþjónusta ungra brotamanna)
67. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 3. október 2024