Skip to main content
FréttHúsnæðismál

Húsnæðishópur ÖBÍ skorar á Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti

By 30. september 2024No Comments

Húsnæðishópur ÖBÍ réttindasamtaka sendir frá sér eftirfarandi áskorun:

Á haustdögum ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum í 9,25% og hafa þeir því staðið í stað í heilt ár. Þar á undan höfðu þeir verið hækkaðir í 23 skipti frá því stýrivaxtahækkunarferlið hófst í maí 2021.

Afleiðingarnar eru þær að húsnæðisuppbygging er við frostmark á sama tíma og þörfin fyrir húsnæði hefur aldrei verið meiri.

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um þriðjung frá því stýrivextir hófu að hækka, var komin í 10,2 % þar til samningar tókust við verkalýðshreyfinguna í mars 2023 en lækkaði þá aftur og hefur nú nánast staðið í stað í 6 % frá því í mars. Þetta táknar að matarkarfan og önnur neysluvara hefur hækkað um 26% og er lágtekjufólki og þar með lífeyristökum algjörlega um megn.  Á sama tíma hækkaði lífeyrir almannatrygginga sem nemur 24 krónum.

Fatlað fólk sem býr í flestum tilfellum við innkomu í 1. til 3. tekjutíund er að stórum hluta það fólk sem hvað mest svíður ástandið og nær ekki endum saman um mánaðarmót. Skuldir þess vaxa og allt of margir eru án húsnæðisúrræða á biðlistum sem ekki haggast.

Starfandi ríkisstjórn hefur ekki gripið  boltann og hækkað barnabætur eðalífeyri sem heitið getur til að létta fólki róðurinn né sett nokkurskonar hömlur á húsnæðisverðeða leiguþak. Ástandið er grafalvarlegt og enn við það sama utan þess að fátækteykst dag frá degi. Aldrei hafa jafn margir leitað til hjálparstofnana eins og á nýliðnu sumri og á dögunum viðraði umboðsmaður skuldara áhyggjur sínar af því að aldrei hefðu jafn margir fasteignaeigendur leitað aðstoðar og frá árinu 2017 sem sýnir að verðbólgan er farin að bíta fleiri en fátækt fólk á okur leigumarkaði.

Byggingariðnaðurinn er frosinn og verktakar halda nú að sér höndum í stórum stíl vegna hás vaxtastigs svo enn eru horfur slæmar þegar kemur að húsnæði. Afleiðingarnar hljóta að skilja eftir sig alvarlegan skaða til framtíðar úr því sem komið er því uppbygging á húsnæði tekur ávallt tíma. Samþjöppun á eignarhaldi á íbúðarhúsnæði vex hröðum skrefum með uppkaupum leigufélaga á almennu íbúðarhúsnæði sem felur í sér fordæmalausa þjóðfélagsbreytingu á Íslandi. Öflun eigin íbúðarhúsnæðis verður erfiðari og sífellt verður eini valkosturinn að gerast leigultakar hjá fasteignafélögum.

Við núverandi efnahagsaðstæður í vestrænu velferðarríki er eðlilegt að spurt sé hvort afmarkað verkfæri sem stýrivextir einir séu lausnin.  Eins hvort hugmyndafræðin að baki sé úrelt eða að stýritækið henti einfaldlega ekki ríkjandi aðstæðum. Peningastefnunefnd hlýtur að spyrja sig þess sama.

Í ljósi öfugsnúinna áhrifa aðgerða löggjafans og Seðlabankans skorar húsnæðishópur ÖBÍ á peningastefnunefnd að koma fram með nýjar tillögur um stjórnun peningamála.  Löggjöfin og beiting stýritækja Seðlabankans mega ekki magna upp né viðhalda verðbólgu og sárafátækt.Þáttur verðlagsþróunar fasteigna í neysluverðsvísitölu hefur verið óviðunandi. Skorað er á Seðlabankann að lækka stýrivexti samhliða öðrum aðgerðum hvort sem þær beinist inná við eða að ríkisstjórn Íslands.