Skip to main content
Frétt

Vinir Yazans skora á stjórnvöld

Á níunda hundrað hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að hætta skuli við brottvísun Yazans Tamimi, ellefu ára drengs með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn. Listinn í heild sinni var birtur í dag en undir hann skrifa meðal annars starfsfólk og stjórnarfólk í ÖBÍ réttindasamtökum.

Hér að neðan má lesa áskorunina í heild og finna hlekk á lista með öllum sem undir hana rita:

Það sem Yazan er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang.

Okkur ber að gera betur!

“Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir um hagi þess” (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna). Það er því satt og rétt að við eigum að liðsinna Yazan hér á landi. Þessi 11 ára drengur er með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm, Duchenne, og nýtur heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem læknar staðfesta að megi ekki rjúfa.

Við flutning hans frá landinu skerðist þjónustan verulega og setur heilsu og líf Yazans í hættu. Það yrði brot á rétti hans til að lifa, þroskast, njóta verndar, og umönnunar í samræmi við aldur og þroska.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skuli fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

Að hjálpa öðrum í neyð er ófrávíkjanleg regla. Að rétta Yazan og fjölskyldu hjálparhönd er aðstoð sem veitt er af mannúð og skyldurækni. Það er því siðferðilega rétt að hætta við brottvísun hans.

Virðum þá mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur lögfest og undirgengist og sýnum mannúð í verki.

Yazan á heima hér.

https://viniryazans.wordpress.com/