Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

Áform um heildstæða stefnumótun fullnustumála (Grænbók)

By 1. júlí 2024No Comments

ÖBÍ fagnar áformum um heildstæða stefnumótun fullnustumála og lýsir yfir ánægju með að hafa verið boðað til fundar með stjórnvöldum ásamt örðum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á fyrstu stigum málsins. Það er von ÖBÍ að áformin muni leiða til jákvæðra breyting, m.a. með aukinni áherslu á betrun og endurhæfingu innan fullnustukerfisins og að komið verði betur til móts við aðstæður fatlaðs fólks en nú er og réttindi þeirra betur tryggð.

ÖBÍ leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að á öllum stigum málsins verði horft til Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (samningurinn). Samkvæmt c-lið 2. mgr. 4. gr. samningsins skuldbinda aðildarríki hans til þess að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð.

ÖBÍ minnir m.a. á 13. gr. samningsins um aðgang að réttinum , 14. gr. um frelsi og öryggi einstaklingsins og 15. gr. um frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu .

Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og forvarna

ÖBÍ telur að tilteknir hópar fatlaðs fólks geti talist vera sérstakur áhættuhópur gagnvart fullnustukerfnu, n.t.t að hlutfall fatlaðs fólks á meðal þess fólks sem grunað er um refsiverða háttsemi af hinu opinbera, er tekið til rannsóknar og hlýtur refsingu sé hátt. Af þeirri ástæðu er gríðarlega mikilvægt að á öllum stigum réttarkerfisins sé tekið tillit stöðu fatlaðs fólks. Enn fremur að þekking á stöðu og þörfum fatlaðs fólks verði innleidd á öllum stigum. Það er mat fagfólks að um helmingur fanga á Íslandi sé með ógreint ADHD eða aðrar skerðingar. Rannsóknir erlendis frá hafa bent til þess að hlutfallið geti verið á bilinu 25-50% (Um helmingur fanga með ADHD, | 108. árg. 2022 | Læknablaðið). ÖBÍ telur að taka verði slíkar upplýsingar alvarlega við stefnumótun fullnustukerfisins.

Einnig telur ÖBÍ rétt að stuðlað verði að frekari rannsóknum á stöðu fatlaðs fólks innan fullnustukerfisins. ÖBÍ telur það geta verið hagnýta leið við endurskoðun á fullnustukerfinu að leggja áherslu á stuðning við fatlaða einstaklinga allt frá barnsaldri. Að sama skapi ætti að auka stuðning við fatlaða einstaklinga eftir að afplánun lýkur.

Á sama tíma og horfast verði í augu við stöðu fatlaðs fólks innan fullnustukerfisins verða úrbætur að vera gerðar undir jákvæðum formerkjum. Stuðla verður að upplýstri, lausnamiðaðri og mannúðlegri umræðu um málefnið. Stjórnvöldum ber að vernda fatlað fólk frá neikvæðri umræðu. Þá mætti í samræmi við áformin leggja aukna áherslu notkun orða á borð við betrun og endurhæfingu fremur en fullnustu.

Aðgengismál

ÖBÍ leggur mikla áherslu að við vinnslu málsins verði á öllum stigum gerð ítarleg greining á aðgengi fyrir fatlað fólk í víðasta skilningi og að úrbætur verði gerðar þar sem þörf er á. Að mati ÖBÍ eru verulegar brotalamir á því að aðgengi sé tryggt innan réttar- og fullnustukerfisins í dag.

Fangelsi þurfa að vera aðgengileg föngum, fangavörðum og gestum. Fangelsin Kvíabryggju og fangelsið Sogni eru opin fangelsi en geta ekki talist aðgengileg hreyfihömluðu fólki. Eina úrræðið fyrir hreyfihamlaða fanga er að flytjast í lokað fangelsi að Hólmsheiði eða sætta sig við mun verri aðbúnað en aðrir fangar á Kvíabryggju eða Sogni.

Fangar þurfa að hafa aðgang að félags- og heilbrigðisþjónustu, þar á meðal að sálfræðingum og geðlæknum sem og viðurkenndum endurhæfingarúrræðum. Margir fangar eru fatlaðir eða verða fatlaðir í afplánun, oft vegna úrræðaleysis. Til að geta fengið örorkulífeyrisgreiðslur þarf fólk að geta sýnt fram á að virk starfsendurhæfing hafi farið fram undir handleiðslu fagaðila og tryggja þar föngum jöfn tækifæri á við aðra til að uppfylla þau skilyrði.

Fleiri úrræði fyrir fatlað fólk

ÖBÍ telur að fjölga þurfi úrræðum til betrunar fatlaðs fólks sem dæmt hefur verið fyrir refsiverða háttsemi. Innleiða þurfi þekkingu á þörfum fatlaðs fólks og henni beitt til að velja úrræði sem líklegri eru til að stuðla að betrun og endurhæfingu en núverandi úrræði. Meðal þess sem horfa mætti til væri stóraukin áhersla á endurhæfingu með aðkomu sérfræðinga og sérhæfðra teyma. Einnig mætti horfa til aukinnar notkunar á opnum úrræðum sem tryggja betur aðgengi en núverandi opin fangelsi gera. Einnig mætti útvíkka möguleika á samfélagsþjónustu.

Samráð

Stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Stefna og starf ÖBÍ réttindasamtaka grundvallast á áherslum og starfi sex málefnahópa um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, barnamál, heilbrigðismál, húsnæðismál og kjaramál. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Áform um heildstæða stefnumótun fullnustumála (Grænbók)
Mál nr. S-113/2024. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ 1. júlí 2024


Tilvísanir í Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

13. gr. Aðgangur að réttinum.

  1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
  2.  Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.

14. gr. Frelsi og öryggi einstaklingsins.

  1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:
    a) njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,
    b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
  2. Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

15. gr. Frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

  1. Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræði- eða vísindatilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.
  2. Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.