„ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að nýta reynslu Bíó Paradís og Ferðamálastofu og beiti sér markvist í að auglýsa aðstoðamannakort út í samfélagið og hvetja einkaaðila til að sýna samfélagslega ábyrgð og greiða leið fatlaðs fólks til virka þáttöku í samfélaginu.“
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (reglugerðarheimild), þskj. 1169, mál. 772.
ÖBÍ réttindindasamtök fagna markmiðum frumvarpsins og telja fyrirhugaðar breytingarnar stuðla að auknu jafnrétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Brýnt er að löggjafinn tilgreini skýrt að fatlað fólk beri ekki að greiða fæðiskostnað starfsfólks sveitarfélaga. Að mati ÖBÍ er mikilvægt að öll sveitarfélög verði vel upplýst um fyrirhugaðar reglugerðabreytingar og að sveitarfélögin beini þeim tilmælum til stjórnenda velferðasviða eða félagsmálanefnda að aðlaga verkferla í samræmi við viðmið nýrra reglugerðar.
Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að: „Með lagasetningunni er ætlunin að veita ráðherra heimild til að kveða nánar á um tiltekin atriði laganna í reglugerð, með það fyrir augum að tryggja jafnræði fatlaðs fólks á við ófatlað fólk, óháð þjónustuformi eða búsetu.“ ÖBÍ telur þessar áherslur til eftirbreytni, enda mikilvægt að fatlað fólk um land allt búi við sömu mannréttindi og lögbundna þjónustu óháð búsetu. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að innleiða þessar áherslur í fyrirhuguðum laga- og reglugerðabreytingum er snúa að sveitarstjórnarstiginu. ÖBÍ fagna fyrirætlunum stjórnvalda um aðstoðarmannakort sem veitir aðstoðarmannesku fatlaðs fólks ókeypis aðgang hjá hinu opinbera, þ.m.t. strætó, sund, söfn o.s.frv. Sú aðgerð er jákvætt skref í átt að auknu jafnrétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs.
ÖBÍ telur mikilvægt að stjórnvöld ígrundi fjölbreyttar aðstæður við notkun aðstoðarmannakorta í samráði við fatlað fólk, t.a.m. aðstæðum þar sem fatlaður einstaklingur sækir viðburð í húsnæði hjá opinberum aðilum en viðburðurinn er á vegum einkaaðila. Annað dæmi væri svigrúm fyrir aðstoðarmann til að aðstoða fatlaðann einstakling í rými á vegum einkaaðila en víkja úr rýminu þegar viðburðurinn hefst. Þetta gæti átt við þegar fatlaður einstaklingur sækir kvikmyndahús, leikhús eða tónleika.
ÖBÍ telur ánægjulegt að stjórnvöld hyggjast hvetja einkaaðila að taka við aðstoðarmannakortum enda stór hluti af viðburðum og afþreyingu ekki á hendi hins opinbera. Að mati ÖBÍ eru fjölmargir kostir fyrir einkaaðila að taka á móti aðstoðarmannakortum og væri ekki fjárhagslega íþyngjandi. Dæmi eru um fyrirtæki sem fjárfesta í samfélagslegri ábyrgð komi því á framfæri í formi auglýsingaherferða eða með merkingum. Í þessu samhengi má nefna Bíó Paradís sem handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ í ár og fékk verðlaunin fyrir frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa. Jafnframt er vert að benda á hvatningarverkefni Ferðamálastofu undir heitinu Gott aðgengi að ferðaþjónustu sem er ágætt dæmi um samstarf við einkaaðila í þágu jafnrétti fatlaðs fólks til samfélagsþáttöku. Þar geta fyrirtæki sem mæta aðgengisviðmiðum fengið vottum og viðurkenningu sem aðgengilegt fyrirtæki.
ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að nýta reynslu Bíó Paradís og Ferðamálastofu og beiti sér markvist í að auglýsa aðstoðamannakort út í samfélagið og hvetja einkaaðila til að sýna samfélagslega ábyrgð og greiða leið fatlaðs fólks til virka þáttöku í samfélaginu.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ
Þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (reglugerðarheimild)
772. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 4. apríl 2024