Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um breytingar á réttindagæslulögum (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn).
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) hafa fengið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011.
ÖBÍ taka undir þær breytingar að skýra þurfi hlutverk og heimildir réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna. Mikilvægt er að réttarvernd fatlaðs fólks sé tryggð með viðeigandi stuðningi hvers og eins, líkt og kveðið er á í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir sem fela í sér mismunandi stuðning. Það er því mikilvægt að vandað sé til verka. Fatlað fólk getur verið í mjög viðkvæmri stöðu, er oft á tíðum illa eða óupplýst um rétt sinn og réttindi, hefur ekki fengið til þess viðeigandi aðstoð né fræðslu. Val á persónulegum talsmönnum er því vandmeðfarið og allt það umboð sem honum er fengið. Í sumum tilfellum mun þrengja að sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins með tilkomu persónulegra talsmanna. Veita getur þurft persónuupplýsingum sérstaklega viðkvæmra hópa sérstaka vernd og er óhætt að segja að það eigi við um þann hóp sem frumvarpsdrögin taka til.
Varðandi 5. gr. frumvarpsdraganna þá taka ÖBÍ undir með umsögn Persónuverndar um að skýra þurfi betur ákvæðið og afmarka betur hvers konar vinnsla upplýsinga teljist nauðsynleg á grundvelli þess og í hvaða tilgangi hún fari fram.
Að lokum hvetja ÖBÍ til þess að frumvarp forsætisráðherra til laga um Mannréttindastofnun Íslands, þskj. 242 – 239. mál, verði samþykkt til þess að styðja við þær breytingar sem lagðar eru fram í þessum frumvarpsdrögum.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
Formaður ÖBÍ réttindsamtaka
Breytingar á réttindagæslulögum (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn)
Mál nr. S-76/2024. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBí, 15. mars 2024