Skip to main content
AðgengiKosningarRéttarkerfiUmsögn

Kosningar – drög að reglugerðum

By 26. febrúar 2024apríl 18th, 2024No Comments

Til umfjöllunar eru drög að fimm reglugerðum sem eru settar á grundvelli kosningalaga.

Áréttað er að Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og nú er í gangi lögfestingarferli. Stjórnvöldum ber því skylda til að virða rétt fatlaðs fólks til tjáningar- og skoðunarfrelsis og greiða fyrir stjórnmálaþátttöku þess. Þar á meðal til þess að nýta kosningarétt sinn með því að veita því aðgengi að upplýsingum og kjörstöðum.

Gera á ráð fyrir viðeigandi aðlögun og greiða fyrir notkun mismunandi samskiptamiðla, hjálpartækja og aðstoðar. Þá þurfa starfsmenn að hafa þekkingu á mismunandi þörfum fólks og geta brugðist rétt við þeim.

Í reglugerð um breytingu á reglugerð um aðstoð við atkvæðagreiðslu nr. 432/2022 eru lagðar til breytingar á 9. og 10. gr. reglugerðarinnar.

Í 9. gr. segir: „Geti kjósandi ekki skýrt fulltrúa kjörstjórnar frá því hvernig hann vill greiða atkvæði skal kjörstjóri eða kjörstjórn synja kjósanda um aðstoð við atkvæðagreiðsluna.“ Hér er öll ábyrgð lögð á kjósandann um að koma vilja sínum til skila. Hins vegar kemur ekki fram hvaða viðmiðum fulltrúi kjörstjórnar á að fylgja til að taka við og vinna rétt úr þeim upplýsingum sem kjósandinn veitir honum né um kröfu til getu eða kunnáttu hans til að meta og veita kjósandanum rétta aðstoð í samræmi við aðstæður.

Í 10. gr. reglugerðarinnar segir: „Auk kjósanda getur aðstoðarmaður kjósanda tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn að kjósandinn óski eftir aðstoð hans við atkvæðagreiðsluna.“ Þetta ákvæði fer ekki fyllilega saman við 1. mgr., 9. gr.

Það sem máli skiptir er að kjósandi fái alla viðeigandi aðstoð til að geta sjálfur skýrt út hvernig hann vill greiða atkvæði fyrir eigin aðstoðarmanni eða fulltrúa kjörstjórnar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Kosningar – drög að reglugerðum
Mál nr. S-23/2024. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 26. febrúar 2024