„Helmings skerðing á fjárhagsaðstoð fyrir einhleypan einstakling sem rekur einn heimili myndi fara úr 228.689 kr. í 114.345 kr. … Sú hætta er fyrir hendi að fyrirhugaðar skerðingaheimildir muni snúast í andhverfu sína og ýta undir fátækt, heilsubresti, húsnæðisóöryggi …“
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
ÖBÍ réttindasamtök telja mikilvægt að fyrirhugaðar breytingar taki mið að aðstæðum fatlaðs fólks svo það hafi sama aðgang að lögbundinni fjárhagsaðstoð til jafns við ófatlað fólk. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur sem mætir ýmsum áþreifanlegum, tæknilegum og kerfisbundnum hindrunum sem hamlar því jöfnu aðgengi að samfélaginu. Skýrt orðalag og heildstæð sýn á fjölbreyttar aðstæður við útfærslu reglna er lykilinn að farsælli stjórnsýslu. ÖBÍ vill því koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.
1.
Við setningu laga og reglugerða er mikilvægt að markmið, mat á áhrifum, útlistun á hugtökum og annar rökstuðningur komi skýrt fram í greinargerð eða viðauka. Þannig getur almenningur, fjölmiðlar og frjáls félagasamtök kynnt sér tilefni tillagnanna og lagt ígrundað mat á nálgun kjörinna fulltrúa. Einnig getur skýr greinargerð eða viðauki dregið úr vafamálum þegar beita þarf ákvæðum í lögum eða reglum.
ÖBÍ leggur til að Reykjavíkurborg leggi fram greinargerð eða viðauka með fyrirhuguðum breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð.
2.
Við lestur á 8. gr. um umsókn og fylgigögn má sjá veigamiklar breytingar á viðmiðum um framvísun persónuskilríkja og öðrum kröfum til að sanna á sér deili. Varnaglar sem sporna gegn misnotkun á öryggisneti velferðarkerfisins eru vissulega mikilvægir, en verða jafnframt að vera skýrir og mega ekki mismuna fólki út frá fötlun eða öðrum aðstæðu. Dæmi eru um að einstaklingar eigi afar erfitt með að fara af heimili sínu, komast á milli staða eða halda utan um nýleg samtöl og tímabókanir vegna fötlunar, t.a.m. sökum hreyfihömlunnar, heilaskaða eða geðrænna veikinda.
ÖBÍ leggst gegn fyrirhuguðum breytingum um að einungis verði hægt að sanna á sér deili með því að mæta á viðeigandi miðstöð. Til eru aðrar leiðir til að sanna deili á umsækjanda og kanna hvort viðkomandi dvelji í raun og veru í Reykjavíkurborg, m.a. með vitjun.
ÖBÍ leggur til að Reykjavíkurborg breyti fyrirhuguðum viðmiðum á þann veg að einstaklingar sem geta ekki mætt í miðstöð Reykjavíkurborgar án aðstoðar vegna fötlunar geti sannað á sér deili með að þiggja vitjun frá starfsfólki borgarinnar og sýni viðkomandi starfsfólki skilríki með mynd.
3.
Í fyrirhuguðum breytingum á 8. gr. kemur fram að hægt verði að gera kröfur um að umsækjandi sem tekur þátt í virkniverkefnum á vegum Virknihúss Reykjavíkurborgar sanni deili á sér í Virknihúsi. Jafnframt að heimilt verði að gera kröfu um að umsækjandi sanni deili á sér með því að mæta í viðeigandi miðstöð, hvenær sem við afgreiðslu umsóknar eða við greiðslu fjárhagsaðstoðar til framfærslu.
ÖBÍ gerir athugasemdir við orðalag og markmið breytinganna. Þörf er á nánari útlistun á tilgangi ákvæðisins er snýr að Virknihúsi og hvort þeir aðilar sem sanna á sér deili í Virknihúsi þurfi einnig að mæta í miðstöð á vegum borgarinnar til að sanna á sér deili. Þá er óljóst hversu langan tíma umsækjandi hefur til að mæta í miðstöðina frá því að óskað er eftir mætingu áður en greiðslur stöðvast.
4.
ÖBÍ gerir verulegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á 11. gr. um lækkun grunnfjárhæðar og áréttar að hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngir en 18 ára. Ólíkt öðrum opinberum fjárhagslegum öryggisnetum er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga síðasta úrræði einstaklinga sem geta ekki framfleitt sér og sínum nánustu.
ÖBÍ telur þörf á nánari útlistun á verklagi varðandi heimildir til skerðinga á grunnfjárhæð til framfærslu. Út frá framsetningu textans getur einstaklingur verið sviptur 50% framfærslu fyrir missa af einu boðuðu viðtali eða boðuðu námskeiði óháð því hvort viðkomandi boði forföll t.d. vegna veikinda eða slyss.
Þá er ekkert verklag sem tryggir jafnræði milli umsækjanda til að koma í veg fyrir að umsækjandi hjá einni miðstöð fái skerðingu á meðan umsækjandi hjá annari miðstöð í samskonar stöðu haldi óbreyttum grunnfjárhæðum. Jafnframt er þörf á skilgreiningu á hugtakinu „veigamiklar ástæður“ en samkvæmt breytingatillögum er heimilt að greiða 85%. ÖBÍ telur það íþyngjandi og varhugavert að setja í reglurnar að heimilt sé að lækka fjárhagsaðstoð jafnvel þegar veigamiklar ástæður mæla gegn því.
ÖBÍ óskar eftir að útskýringum á þeim hugtökum sem tilgreind eru í fyrirhuguðum breytingum á 11. gr., verklag og hvernig Reykjavíkurborg hyggist tryggja jafnræði meðal umsækjenda milli hverfa borgarinnar.
Þá leggur ÖBÍ til að Reykjavíkurborg dragi til baka fyrirhugaðar skerðingarheimildir um 50% og 15%, leggi refsivöndinn á hilluna og dragi fram gulrótina. Helmings skerðing á fjárhagsaðstoð fyrir einhleypan einstakling sem rekur einn heimili myndi fara úr 228.689 kr. í 114.345 kr.
Sú hætta er fyrir hendi að fyrirhugaðar skerðingaheimildir muni snúast í andhverfu sína og ýta undir fátækt, heilsubresti, húsnæðisóöryggi auk þess að draga úr samfélagslegri virkni með tilheyrandi afleiðingu fyrir viðkomandi og samfélagið í heild. Vænlegra væri að hafa traust fjárhagslegt öryggisnet samhliða fjölbreyttum og jákvæðum fjárhagslegum hvötum fyrir mætingu og virkni.
5.
ÖBÍ fagna fyrirhuguðum breytingu á 12. gr. reglnanna um tekjur og eignir umsækjanda. Heimild til að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu og hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun er til bóta.
Einnig er vert að nefna undanþágu frá 50% skerðingum fyrir einstaklinga sem taka þátt í atvinnuúrræðum hjá Virknihúsi. Lífeyristakar hafa fá tækifæri til að vænka hag sinn og mikilvægt að það hafi trygga framfærslu og falli ekki milli kerfa.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ
Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg
Breyting á reglum. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar.
Umsögn ÖBÍ, 15. janúar 2024