Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.), þingskjal 509 – 468. mál.
ÖBÍ leggur til að ákvæðum lagabreytingar sem lögð eru til í 21. gr. frumvarpsins verði breytt, enda geti það ekki talist nægileg birting að senda tilkynningar í stafræn pósthólf meðan ekki er tryggt að allir landsmenn hafi ekki aðgang að sínum pósthólfum.
Flýta þarf innleiðingu veftilskipunar ESB 2016/2102, enda erum við eftirbátar annarra Evrópuþjóða. 12. gr. frumvarpsins er háð því að aðgengi sé tryggt að stafrænum vettvangi svo að upplýsingaskylda rekstraraðila sé virt.
Það er mikilvægt að gæta að því að skerðingar verði ekki þegar fólk fær styrk til bifreiðakaupa úr fleiri en einum sjóði, m.t.t. 13. gr. frumvarpsins.
Nægileg birting
Í 21. gr. frumvarpsins segir að við 13. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019 bætist við svohljóðandi málsliður: „Tilkynninguna má senda í stafrænt pósthólf á vegum stjórnvalda, sbr. lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, og telst það ávallt nægileg birting.“ Um er að ræða tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar.
Í greinargerð segir enn fremur: „Tilkynningin mun eingöngu verða send í stafrænt pósthólf aðila og telst það ávallt nægileg birting tilkynningar en framkvæmdin hefur verið sú að innheimtumenn ríkissjóðs senda tilkynninguna með almennum pósti á lögheimili aðila. Tilkynningin telst birt viðtakanda þegar hún er aðgengileg í stafrænu pósthólfi en þarf ekki að vera komin til vitundar hans.“ Fram kemur að ákvæði þetta gangi framar 5. og 18. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt, nr. 105/2021 og 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Til að hafa aðgang að stafrænu pósthólfi þarf fólk að hafa undir höndum rafrænt skilríki og geta beitt þeim. Samkvæmt fjármálaráðherra er ríflega 80% landsmanna með rafræn skilríki, en það þýðir að um 20% landsmanna vanti þau. Við innleiðingu nýrra kerfa þarf alltaf að vera til varaleið til handa þeim sem mögulega geta ekki notað þau. Staðan er sú að erfitt hefur reynst að veita hópum fólks rafræn skilríki eins og kerfið er sett upp og ljóst er að margir munu aldrei fá rafræn skilríki. Aðrir eiga erfitt með að beita þeim og enn aðrir geta ekki notað þau tímabundið eða skyndilega t.d. vegna veikinda eða slyss.
Það er erfitt að sjá réttlætið í því að einstaklingur sem rekur fyrirtæki og notar ekki stafrænt pósthólf til að reka sín mál gagnvart stjórnvöldum, vegna þess að hann hefur ekki vanist því, veikist illa eða lendir í slysi, geti ekki fengið tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar með öðrum hætti en í stafrænt pósthólf sem er aðeins ætlað honum og án aðgangs fyrir aðra. Aðstandendur geta því staðið frammi fyrir því að ofan á áhyggjur um ástvin geti lagst skyndileg stöðvun á rekstri fjölskyldufyrirtækisins. Sífelld vöktun á stafrænu pósthólfi er enn fremur óþarfa streituvaldur fyrir aðila sem á í rekstrarerfiðleikum. Það getur ekki verið „í takt við stafræna þróun stjórnvalda þar sem umhverfisvernd, hagræðing í rekstri og skilvirk og örugg samskipti við aðila eru jafnframt höfð að leiðarljósi“ (bls. 9).
ÖBÍ leggur því til að aðilar geti ávallt óskað eftir að fá gögn á annan hátt en í stafrænt pósthólf og að við sendingu mikilvægra tilkynninga í stafrænt pósthólf sé ávallt hnippt í móttakanda.
Aðgengi að upplýsingum á stafrænum vettvöngum
Í 12. gr. segir að það liggi upplýsingaskylda á rekstraraðilum stafrænna vettvanga, en með vettvöngum er átt við hugbúnað eins og smáforrit, sem gerir í þessu tilfelli leigusölum kleift að tengjast notendum um þjónustu og upplýsingar.
Meðan veftilskipun ESB 2016/2102 er ekki innleidd er ekki tryggt að allir hafi aðgengi að heimasíðum og öppum, og því er alls ekki víst að tenging komist á milli leigusala og leigutaka þrátt fyrir upplýsingaskyldu. Tilskipunin var innleidd í öllum Evrópusambandslöndunum haustið 2018 og fyrr á þessu ári í Noregi. Til stóð að leggja málið fram í febrúar 2023 skv. þingmálaskrá 153. löggjafarþings, en varð ekki af og óvíst er hver staða þess er í dag.
Styrkir til hreinorkubíleigenda
Í 13. gr. er lagt til að styrkir til hreinorkubíleigenda úr Orkusjóði teljist ekki til skattskyldra tekna hjá mönnum að uppfylltum skilyrðum laganna.
Það er ekki síður mikilvægt að koma í veg fyrir skerðingar þegar fólk fær styrk til bifreiðakaupa úr fleiri en einum sjóði.
Hreyfihamlað fólk hefur getað sótt um styrki og uppbætur til kaupa og reksturs bifreiða. Vegna þess að þessir styrkir hafa lítið sem ekkert hækkað frá árinu 2009 hafa þessir einstaklingar setið eftir í rafbílavæðingunni sem þjóðin hefur annars tekið fullan þátt í. Það er mjög mikilvægt að fatlaðir einstaklingar hafi ráð á að eignast sparneytinn og umhverfisvænan bíl líkt og aðrir, en þá er jafnframt afar brýnt að nýtt styrkjakerfi sem ætlað er hreinorkubílaeigendum rekist ekki svo á styrkja og uppbótakerfi Tryggingastofnunar til kaupa og reksturs bifreiða að hreyfihamlaðir einstaklingar sitji eftir með skertan fjárstyrk.
Áform um að fella brott persónuafslátt eftirlaunaþega og lífeyrisþega
Þá er lögð til breyting þess efnis að fella brott persónuafslátt eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis en persónuafsláttur er almennt eingöngu í boði fyrir þá sem teljast heimilisfastir (búsettir) hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér þar sem flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimila eingöngu heimilisfestarríki skattlagningarrétt á lífeyri.
Stór hluti örorkulífeyristaka telst til tekjulágra og á erfitt með að láta enda ná saman og má því ekki við því að gerðar séu íþyngjandi breytingar, eins og að fella brott persónuafslátt af tekjum á Íslandi. Þá segir í greinargerðinni að ekki sé gert ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér þar sem flestir tvísköttunarsamningar Íslands heimila eingöngu heimilisfestarríki skattlagningarrétt á lífeyri og að sambærileg réttindi fá menn almennt í því ríki sem þeir búa. Þetta á ekki við um alla tvísköttunarsamninga og nær því ekki til allra lífeyristaka og ekki fá allir sambærileg réttindi í búseturíki.
Samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks
Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ