„Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri frítekjumarkið komið í tæpar 279 þúsund kr. á mánuði í stað 200.000 kr. í janúar 2023.“
Efni: Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (frítekjumark vegna lífeyristekna) þingskjal 108 – 108. mál.
ÖBÍ lýsir stuðningi við hækkun frítekjumarka vegna tekna lífeyrisþega við útreikning lífeyris almannatrygginga. Upphæðir frítekjumarka hafa staðið í stað árum og jafnvel áratugum saman í stað þess að þau séu uppfærð og látin fylgja öðrum hækkunum, s.s. hækkun lífeyris almannatrygginga og/eða launavísitölu.
Tvö frítekjumörk fyrir útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hafa verið óbreytt frá árinu 2009. Þetta á við um frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna (328.800 kr. ári) og frítekjumark vegna fjármagnstekna (98.640 kr.) Ef þessi frítekjumörk hefðu hækkað í samræmi við árlega lögbundna breytingu lífeyris almannatrygginga væru fjárhæðirnar í byrjun árs 2023 tæp 660.000 kr. fyrir lífeyrissjóðstekjur og rúm 198 þúsund fyrir fjármagnstekjur.
Frítekjumark atvinnutekna fyrir örorkulífeyristaka (bráðabirgðaákvæði) var hækkað í 2.400.000 kr. á ári í byrjun árs 2023. Þá hafði það verið óbreytt frá árinu 2009. Í frumvarpi til fjárlaga 2024 er ekki gert ráð fyrir að frítekjumarkið verði uppfært. Frítekjumark á atvinnutekjur hvetur örorkulífeyrisþega sem hafa vinnufærni til atvinnuþátttöku. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyristaka. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri frítekjumarkið komið í tæpar 279 þúsund kr. á mánuði í stað 200.000 kr. í janúar 2023.
Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/1997 og innihélt meðal annars núgildandi ákvæði um árlega breytingu lífeyris almannatrygginga er ljóst að vilji löggjafans var að fjárhæðir frítekjumarka verði samhliða bótafjárhæð ákveðnar árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Fram til ársins 2009 var framkvæmdin í samræmi við þetta og frítekjumörk hækkuð í reglugerðum sem settar voru með stoð í 62. gr. laga nr. 100/2007 (áður 69. gr. laganna). Frá þessu tímamarki hafa lög ekki breyst, aðeins framkvæmdin.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Almannatryggingar (frítekjumark vegna lífeyristekna)
108. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 8. nóvember 2023