Efni: Athugasemdir – ábendingar ÖBÍ réttindasamtaka vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.
Eftirfarandi eru ábendingar ÖBÍ vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Ekki er um að ræða tæmandi talningu á breytingum, en ÖBÍ telur að heildarendurskoðun á lögunum þurfi að fara fram m.t.t. fyrirhugaðra áforma um að setja réttindagæslu fyrir fatlað fólk undir óháða og sjálfstæða mannréttindastofnun. ÖBÍ áskilur sér því rétt til þess að koma áleiðis frekari ábendingum/athugasemdum, hvort heldur varðandi þessa tilteknu vinnu og aðra vinnu varðandi breytingar á réttindagæslulögunum.
Endurskoða þarf lögin m.t.t. ákvæða SRFF. Undir lögin fellur réttindavaktin. Réttindavaktinni er falið mikilvægt hlutverk og mikil ábyrgð, t.a.m. að tryggja fötluðu fólki greiðan aðgang að upplýsingum um rétt sinn, halda utan um og safna upplýsingum um réttindamál. Jafnframt ber hún ábyrgð á fræðslu- og upplýsingastarfi. Ekkert er að finna um nefndarskipan eða upplýsingar um vinnu vaktarinnar á heimasíðu Stjórnarráðsins. Ljóst er að endurskoða þarf lögin m.t.t. réttindavaktarinnar svo hlutverk hennar nái að fram að ganga. Ótækt er að jafn mikilvægu hlutverki og nefndinni er falið sé einungis til á blaði en ekki í verki. Réttindagæslan er vanfjármögnuð og tryggja þarf henni meira og viðvarandi fjármagn. Réttindagæslan á heima undir sjálfstæðri mannréttindastofnun og er mikilvægt að gert verði ráð fyrir henni í þeirri vinnu sem nú fer fram í forsætisráúneytinu.
Réttindagæslulögin og 13. gr. SRFF
Þarft er að skýra betur aðkomu og heimildir réttindagæslumanns fatlaðs fólks varðandi aðkomu að skýrslutökum. Lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála kveða á um í 61 gr. að sakborning og vitni sé heimillt að hafa með sér “hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku”. Einnig er hlutverk réttindagæslumanna tekið fyrir í fyrirmælum frá Ríkissaksóknara frá 2. október 2018 um meðferð kynferðisbrota þegar um fatlaðan brotaþola og/eða sakborning er um að ræða.
Tækifæri við lögfestingu SRFF sem snýr að persónulegum talsmönnum og gr. 12. 13. og 14.
Athuga þarf stöðu persónulegra talsmanna m.t.t. lögræðislaga. Í stað þess að láta lagaákvæði sem fjalla um persónulega talsmenn (PT) standa innan sérlaga um réttindagæslu fatlaðs fólks nr. 88/2011 væri nær að hafa ákvæði um þá í endurskoðuðum lögræðislögum. Með slíkri breytingu væri verið að tengja réttindi fatlaðs fólks til þess að velja sér PT ásamt heimildum og skyldum PT við heildarlöggjöf sem tæki á lögræði almennt.
Myndi slík breyting tryggja betur réttindi þeirra sem ekki geta farið með sín málefni án aðstoðar og líklegt er að slík samþjöppun lagaákvæðanna í eitt regluverk myndi koma í veg fyrir sviptingar lögræðis þar sem þess myndi ekki hafa gerst þörf. Setning PT sem aðstoðar fatlaðan einstakling til þess að sinna málefnum sínum myndi uppfylla meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gagnvart mögulegum sviptingum lögræðis þar sem skipun talsmanns er tvímælalaust vægari aðgerð til þess að ná tilsettu markmiði. Færa þarf framkvæmdina og eftirlitið undir sýslumann og gera nauðsynlegar breytingar varðandi mat, hæfi, skilvirkt eftirlit og uppsögn/riftun; stigskipta hlutverkinu. Tryggja þarf aðgengi fólks að nauðsynlegum hjálpar- og tjáskiptatækjum og túlkun og gera úthlutun þeirra skilvirkari, til að draga úr tilbúinni þörf fyrir því að aðrir tali máli fólks eða noti rafræn skilríki þess.
Réttindagæslufólk, sbr. 5. gr. réttindagæslulaganna
Endurmeta þarf og útfæra betur hlutverk og verkefni réttindagæslufólks. Mikið mæðir á réttindagæslufólki en verkefnin eru margvísleg og mörg hver sem eiga líklega ekki heima þar.
Reglugerð um sérfræðiteymi
Yfirfara reglugerð um sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Hefur reglugerðin verið uppfærð? Er hægt að fá upplýsingar um hvort leitað hafi verið til sérfræðiteymisins, þ.e. sambærilegt þeim upplýsingum sem hægt er að fá varðandi lögræðissviptingar og nauðungarvistanir?
Bæklingur um réttindagæslu fyrir fatlað fólk
Barns síns tíma – mikilvægt að uppfæra og gefa út endurskoðað efni. Í bæklingnum má t.a.m. finna eftirfarandi upplýsingar:
„Má beita fólk nauðung? Aðalreglan er sú að það er bannað að beita fólk nauðung. Sumt má þó aldrei gera eins og að skaða sjálfan sig og aðra eða eyðileggja dýra hluti. Þá getur verið leyfilegt að beita nauðung.“
Þetta stenst ekki skoðun og þarf að yfirfara og breyta.
Virðingarfyllst,
F.h. ÖBÍ – réttindasamtaka
Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur
Athugasemdir – ábendingar ÖBÍ réttindasamtaka vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 29. september 2023