Formaður, varaformaður og starfsfólk skrifstofu ÖBÍ réttindasamtaka varði síðustu viku á fundum með fjölda mismunandi stofnana og samtaka sem starfa í málaflokki fatlaðs fólks í Genf í Sviss. Tilgangur ferðarinnar var að efla tengsl við alþjóðastofnanir og -samtök, afla þekkingar og miðla þeirri þekkingu sem ÖBÍ réttindasamtök hafa á málaflokknum.
Allir fundirnir voru með sérstaka áherslu á réttindi fatlaðs fólks. Fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka fengu kynningu á því hvað hver stofnun eða samtök leggja áherslu á í málaflokknum, hvaða möguleika ÖBÍ réttindasamtök hafa til samstarfs og þá miðluðum við upplýsingum um stöðuna á Íslandi sem og reynslu okkar í málaflokknum.
Stærstur hluti fundanna var með fulltrúum stofnanna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Fundað var með Esteban Tromel frá Alþjóðavinnumálastofnuninni um stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og með Ricardo Cerado frá Flóttamannastofnun SÞ um vernd fatlaðs flóttafólks og aðstoð við það.
Þá hittum við Darryll Barrett frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og ræddum sérstaklega um aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu víða um heim, sem er verulega ábótavant. Í tvígang var fundað með fulltrúum frá skrifstofu mannréttindastjóra SÞ. Fyrst með þremur starfsmönnum en síðan með Nödu al-Nashf, varamannréttindastjóra SÞ.
Utan funda með stofnunum SÞ hittu ÖBÍ réttindasamtök einnig fulltrúa þriggja alþjóðlegra samtaka; Disability Rights Fund, Handicap International og International Disability Alliance. Markmið þeirra funda voru að kynnast starfseminni, efla tengslin og ræða um samstarf.
Alþjóðlegt samráð og samskipti skiptir miklu máli í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Mikilvægt er að efla þessi tengsl svo hægt sé að deila hugmyndum á milli landa, miðla þekkingum og fróðleik. Þannig geta ÖBÍ réttindasamtök styrkt sína stöðu í baráttunni fyrir réttindum fatlaðs fólks og að sama skapi stutt við samtök um heim allan.