Skip to main content
HúsnæðismálUmsögn

Breytingar á skipulagslögum (tímabundnar uppbyggingarheimildir)

By 8. ágúst 2023ágúst 10th, 2023No Comments

ÖBÍ leggur til að ríki og sveitarfélög setji sér metnaðarfyllri markmið við uppbyggingu húsnæðis og byggi 41.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf landsmanna.

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um áform um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (tímabundnar uppbyggingarheimildir), mál nr. 129/2023

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að stjórnvöld auki heimildir sveitarfélaga til að þrýsta á uppbyggingu lóða sem þau hafa úthlutað. Staðan á húsnæðis- og leigumarkaði er slæm. Skortur á íbúðarhúsnæði og hátt verðlag er landlægt vandamál sem bitnar mest á tekjulægri hópum samfélagsins. Stjórnsýslan þarf að ganga ákveðin til verka og tryggja að áformuðum íbúðauppbyggingum ljúki á umsömdum tíma.

Í umsögn ÖBÍ um breytingar á skipulagslögum sem barst Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þann 19. maí 2023 kom fram ákveðin og rökstudd gagnrýni á vankanta í frumvarpinu. Að mati ÖBÍ hefur frumvarpið ekki tekið breytingum sem mæta þeirri gagnrýni sem sjá má í markmiðum áforma um lagabreytingu, máli nr. 129/2023. ÖBÍ ítrekar því eftirfarandi athugasemd.

Uppbygging á íbúðarhúsnæði sem samsvarar eftirspurn og þörfum almennings er ein af forsendum búsetuöryggis. Samkvæmt niðurstöðu þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum sem birt var í Fjármálaáætlun 2024-2028 þarf að byggja 37.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun. Einnig bendir þarfagreining HMS á að byggja þurfi 4.000 íbúðir til viðbótar til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf.

ÖBÍ leggur til að ríki og sveitarfélög setji sér metnaðarfyllri markmið við uppbyggingu húsnæðis og byggi 41.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf landsmanna.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Áform um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (tímabundnar uppbyggingarheimildir)
Mál nr. S-129/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 8. ágúst 2023