Skip to main content
Frétt

Sextánda ráðstefnan um SRFF sett í New York

Hópmynd af íslenskum fulltrúum á COSP16.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri sækja nú COSP-16, sextándu ráðstefnu þeirra ríkja sem hafa undirritað samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Á meðal annarra þátttakenda eru Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra og Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Félags- og utanríkismálaráðuneyti Íslands stóðu fyrir hliðarviðburði í dag um stafrænar lausnir fyrir fatlað fólk, í samstarfi við Norræna ráðherraráðið. Fyrirlesarar fóru þar um víðan völl yfir þróun notendavænna og aðgengilegra stafrænna lausna hjá hinu opinbera fyrir fatlað fólk.

Eiður Welding, stjórnarmaður í ÖBÍ, flutti ávarp á fundinum ásamt öðrum fulltrúum ungs fólks í réttindabaráttuhreyfingum Norðurlanda.

COSP-16 hófst formlega í New York-borg Bandaríkjanna í dag en dagskrá heldur áfram á morgun og á fimmtudag.