Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Drög að skýrslu um aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu

By 5. apríl 2023júní 19th, 2024No Comments

Umsögn um drög að skýrslu um aðgerðaráætlun lýðheilsustefnu, mál nr. 70/2023.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að lögð hefur verið fram drög að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára, en benda á að leggja þarf talsvert meiri áherslu en nú er gert á að bæta lýðheilsu fatlaðs fólks, sem stendur frammi fyrir meiri hindrunum en aðrir samfélagsþegnar.

Ísland hefur skuldbundið sig til að greiða fyrir aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja snemmbærar áætlanir til hæfingar í heimabyggð sem byggðar eru á þverfaglegu mati á þörfum og styrkleikum hvers einstaklings um sig, skv. 25. og 26. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í frumdrögum allrar áætlanagerðar er nauðsynlegt að horfa til jaðarhópa samfélagsins sem hafa orðið útundan við fyrri slíka áætlanagerð og spyrja hvernig koma á til móts við þá áður en lengra er haldið. Áætlanir sem ætlað er að stuðla að lýðheilsu þurfa betur að horfa til þess að fólk með margvíslegar fatlanir sitji ekki eftir meðan þorri þjóðarinnar hjólar saman í vinnuna. Lýðheilsustefna verður að stuðla að jöfnuði, þannig að fatlað fólk hafi tækifæri til þátttöku. Lagt er til að sveitarfélög landsins leiti til aðildarfélaga ÖBÍ um ráðgjöf og geri áætlun um að koma til móts við fatlað fólk með æfinga- og heilsuúræðum á hverjum stað.

Gera þarf bragarbót á að koma til móts við mismunandi hópa á líkamsræktar- og sundstöðum og öðrum þeim stöðum sem ætlaðir eru til að stuðla að líkamlegri og andlegri heilsu. Huga þarf að aðgengi, þar með talið birtustigi, hljóðvist, aðgengi að sundlaug/æfingaaðstöðu og skipti- og baðaðstöðu svo eitthvað sé nefnt.

Fólk á örorkulífeyri getur sjaldnast leitað í stéttarfélagssjóð til niðurgreiðslu á líkamsrækt og lífeyrinn hrekkur skammt. Það væri æskilegt að opna sjóð fyrir fólk utan stéttarfélaga til að það geti stundað líkamsrækt. Honum væri ætlað að niðurgreiða líkamsrækt en einnig að borga laun og aðgang aðstoðarmanneskju á æfingu.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða ekki hjálpartæki sem eingöngu eru til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ.á.m. útivist og íþróttir), né heldur tæki til líkamsæfinga skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja nr. 760/2021. Það felur í sér að kerfið byggir undir hreyfingarleysi og félagslegrar einangrunar fatlaðs fólks sem þarf að nota hjálpartæki. ÖBÍ hefur lagt til breytingu á þessu ákvæði sem rétt væri að framkvæma án tafar.

Sálfræðiþjónusta er heldur ekki niðurgreidd nema að mjög litlu leyti, þrátt fyrir lagaskyldu þar um, en andleg vanheilsa reynist fólki mikill þröskuldur þegar kemur að ástundun líkamsræktar. Það þarf að bæta.

ÖBÍ réttindasamtök lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs við heilbrigsráðuneytið varðandi það mál sem hér er til umsagnar.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að skýrslu um aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu. Mál nr. 70/2023. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 5. apríl 2023.