Umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál, 126. mál.
ÖBÍ – réttindasamtök lýsa stuðningi við þingsályktunartillöguna sem hér er til umsagnar og telur það mikið framfaraskref að settur verði á fót starfshópur sem falið verður að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta.
Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 (hér eftir skammstafað SRFF) og jafnframt hafa stjórnvöld lýst því yfir að lögfesta eigi samninginn. ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að samningurinn sé hafður til hliðsjónar í hvívetna við mótun tillagna um breytt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál. Fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis og meiri líkur eru á að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi.
Mikilvægt er að í endurskoðuninni verði litið til ofbeldis gagnvart fötluðum konum og stúlkum sem eru sérstaklega varnarlausar og ávarpaðar í 6. gr. SRFF.
Að öðru leyti taka ÖBÍ – réttindasamtök undir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um málið.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ
Upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. 126. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 22. mars 2023