Skip to main content
SRFFUmsögn

Skýrsla um alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

By 20. október 2022mars 20th, 2023No Comments

„Allmörg dæmi eru um að fatlaðir fangar, þá sérstaklega fangar með þroskahömlun eða fangar með geðrænar áskoranir, fái ekki viðeigandi stuðning eða þjónustu“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um drög að sjöttu skýrslu Íslands um alþjóðsamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

ÖBÍ skilaði inn viðbótarskýrslu í mars 2021 til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með framkvæmd og innleiðingu fyrrgreinds samnings.

ÖBÍ vill koma eftirfarandi á framfæri:

Ofbeldi gegn fötluðu fólki

Í skýrslu ríkislögreglustjóra frá árinu 2020 kemur fram að fatlað fólk sé mun líklegra til að verða fyrir ofbeldi en þeir sem ófatlaðir eru. Jafnframt segir í skýrslunni að sakfellingar gegn fötluðu fólki sé hlutfallslega lægra en gegn ófötluðu. Þá séu fatlaðar konur í enn meiri hættu en fatlaðir karlmenn. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað á lögum um meðferð sakamála og á almennum hegningarlögum en það dugar ekki eitt og sér til. Frekari fræðsla þarf að eiga sér stað innan lög- og dómgæslunnar.

Lögræðislög

ÖBÍ telur bæði nauðsynlegt og mikilvægt að heildarendurskoðun fari fram á lögræðislögum. Þingsályktun var samþykkt í júní 2019 sem fól í sér vinnu í heildarendurskoðun á lögræðislögum. Þingmenn úr öllum flokkum voru kosnir í nefndina og var hlutverk nefndarinnar m.a. að hafa víðtækt samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila við vinnu að endurskoðuninni, þar á meðal við samtök fatlaðs fólks. Þá var markmið nefndarinnar, auk almennrar heildarendurskoðunar, að líta sérstaklega til Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um afnám allrar mismununar gagnvart fólki með fötlun, rétt fatlaðra einstaklinga til þess að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra, stuðning við ákvarðanatöku í stað staðgengilsákvarðanatöku, rétt fatlaðra einstaklinga til frelsis til jafns við aðra, afnám þvingandi meðferðar og lyfjameðferðar á grundvelli fötlunar og rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar.

Lítið sem ekkert hefur heyrst frá störfum nefndarinnar síðan á haustdögum ársins 2020 og er þess óskað að stjórnvöld gefi svör um hvar eða hvort fyrrgreind markmið og vinna sé að finna.

Ljóst er að heildurendurskoðun lögræðislaga verður að eiga sér stað, umboðsmaður Alþingis hefur m.a. beint því til dómsmálaráðherra, og þá sérstaklega í ljósi þess að nú hefur vinna um landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) farið af stað sem og Grænbók mannréttinda. Gildandi lögræðislög fara gegn ákvæðum 12. gr. SRFF og markmiðum samningsins í heild.

Aðgangur fatlaðs fólks að réttindum

Langflest fatlað fólk er efnalítið og tekjulágt og reiðir sig á örorkulífeyri. Af því leiðir að takmörkuð tækifæri eru á að sækja sér réttindi t.a.m. aðstoð lögfræðinga/lögmanna við hin ýmsu mál. Stór hópur fatlaðs fólks þarf að fara með mál sín fyrir kærunefndir í stjórnkerfinu, kvartanir til umboðsmanns Alþingis eða jafnvel fyrir dómstóla. Þau lög og reglur sem á reynir eru þess eðlis að nauðsynlegt er að leita til löglærðra með aðstoð. Slík aðstoð felur í sér mikinn kostnað, fyrir utan það andlega álag sem ferlið felur í sér. Nauðsynlegt er að ríkið geri breytingar á lögum og tryggi fjárveitingar svo fötluðu fólki sé gert kleift að sækja réttindi sín til jafns við öll.

Valfrjáls viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Fyrir árslok 2017 átti valfrjáls viðauki við SRFF að vera fullgiltur, sbr. þingsályktun. Enn hefur ekki borið á fullgildingunni. Fullgildingin felur það í sér að fatlað fólk og hópar, sem fullreynt hafa innlendar leiðir til að ná fram rétti sínum sem SRFF kveður á um, geta kvartað til sérfræðinefndar sem starfar skv. samningnum og óskað eftir áliti. Fullgildingin felur því í sér aukin réttindi til handa fötluðu fólki og veitir að auki mikið aðhald gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum, ríkis og sveitarfélaga.

Fatlaðir fangar og aðstæður þeirra

Allmörg dæmi eru um að fatlaðir fangar, þá sérstaklega fangar með þroskahömlun eða fangar með geðrænar áskoranir, fái ekki viðeigandi stuðning eða þjónustu. Þá eru dæmi sem sýna að þessir fangar hafi búið í fangelsum eftir að afplánun þeirra lauk þar sem úrræði voru ekki fyrir hendi. Margir þessara fanga hafa verið háðir vímuefnum en afar takmörkuð úrræði eru fyrir hendi innan fangelsana sem taka veita stuðning eða aðstoð hvað vímuefni varðar.

Þá vill ÖBÍ sérstaklega koma því á framfæri að orðfærið „eiturlyfjanotkun“ er bæði fordómafullt og niðurlægjandi og úr takti við það sem skaðaminnkandi úrræði hafa verið að óska eftir að verði afmáð, sama gildir um alþjóðasamfélagið. Slík orðanotkun viðheldur fordómum og stimplunum á jaðarsettahópa sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Skýrsla um alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Mál nr. 179/2022. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. október 2022