Skip to main content
Umsögn

Aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026

By 20. janúar 2023mars 20th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) styðja tillöguna eindregið. Mannleg reisn er hornsteinn allra mannréttinda, sérhver einstaklingur er verðmætur í sjálfum sér og barátta gegn mismunun og fordómum er grundvallarhugmynd mannréttinda. Fatlað fólk fer ekki varhluta af hatursorðræðu eða ofbeldinu sem kann að fylgja í kjölfar hennar. Þrátt fyrir að tjáningarfrelsi sé einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags er það vandmeðfarið og getur t.a.m. frelsið til tjáningar og annar grundvallarréttur skarast. Hvað það varðar telur ÖBÍ mikilvægt að setja tjáningarfrelsinu ákveðnar skorður vegna skörunarinnar sem og vegna þjóðfélagslegra hagsmuna.

ÖBÍ fagnar því að leggja eigi upp með mikla fræðslu, innan stjórnsýslunnar sem og utan, og er mikilvægt að hún verði aðgengileg og auðfundin. Vitundarvakning meðal stjórnvalda og almennings hvetur til virðingar fyrir fjöl- og margbreytileika og er mikilvægt að halda henni til haga og fylgja eftir. ÖBÍ hvetur til þess að vel verði haldið utan um gagnasöfnun og tölfræði en með því verður auðveldara að skynja og skilja vandann og bregðast við honum.

ÖBÍ mun fylgjast með framvindu þessarar mikilvægu vinnu og eru boðin og búin til þess að veita leiðsögn eða leggja fram aðstoð til þess að vinnan nái tilætluðum markmiðum. Þá minna ÖBÍ góðfúslega á samráðsskyldu stjórnvalda, sbr. 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ – réttindsamtaka

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ – réttindasamtaka


Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023-2026
Mál nr. 2/2023. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. janúar 2023