Skip to main content
MenntamálUmsögn

Niðurfelling námslána

By 26. október 2022mars 20th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka vegna tillögu til þingsályktunar um niðurfellingu námslána. Þingskjal 156 – 155. mál.  

ÖBÍ – réttindasamtök taka heilshugar undir að breyta eigi lögum nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna þannig að heimilt verði að fella niður námslán að hluta eða að öllu leyti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a vegna alvarlegra afleiðinga slysa eða alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka.

Allir geta veikst eða orðið fyrir slysi hvenær sem er á lífsleiðinni. Slíkt áfall getur haft miklar breytingar í för með sér, meðal annars fjárhagslegar. Þá getur það einnig leitt til þess að viðkomandi geti ekki lengur nýtt menntunina til að afla tekna. Þessu til rökstuðnings vísar ÖBÍ til þess að yfir helmingur þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara1 og þiggur þar fjárhagsaðstoð til þess að greiða fyrir skiptatryggingu gjaldþrotaskipta eru örorkulífeyristakar.

Því mæla ÖBÍ réttindasamtök eindregið með því að í slíkum kringumstæðum væri til lagaheimild til þess að fella niður lán að hluta eða öllu leyti.

ÖBÍ vill einnig koma á framfæri athugasemdum varðandi það að lögin um Menntasjóð taka ekki til ábyrgðarmanna sem glíma við fjárhagsvanda en hér verður reifað raundæmi frá Umboðsmanni skuldara. Ábyrgðarmaður var sjálf örorkulífeyristaki en í ábyrgð fyrir námsláni móður sinnar. Ábyrgðarskuldbindingin var gjaldfelld og nam skuldin mörgum milljónum króna ásamt innheimtukostnaði. Sjálf var ábyrgðarmaðurinn með námslán sem hún hefði fengið undanþágu frá afborgunum á grundvelli þess að hún væri örorkulífeyristaki og með lágar tekjur. Þarna sést svart á hvítu að Menntasjóður viðurkennir að hún geti ekki staðið undir eigin námslánum og veitir henni undanþágu frá afborgunum en býður ekki upp á neinar lausnir varðandi ábyrgðarskuldbindinguna á námsláni móður hennar.

Nú þegar lögbundin endurskoðun laga um Menntasjóð á að fara fram á haustþingi 2023 hvetur ÖBÍ þingmenn til þess að beita sér fyrir hagsmunum örorkulífeyristaka í þeirri vinnu.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Niðurfelling námslána. 155. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 26. október 2022