Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð.
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf, 25. mál.
ÖBÍ – réttindasamtök taka heilshugar undir að fest verði í sessi lýðheilsumat hér á landi og gert þannig að föstum hluta stjórnsýslunnar. Jafnframt taka ÖBÍ – réttindasamtök undir að lýðheilsumat sé áhrifarík og einföld aðgerð þar sem hægt er að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu.
Því miður hafa stjórnvöld hingað til ekki látið lýðheilsumat ná sérstaklega til fatlaðs fólks.
Mikilvægt er að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður til hliðsjónar við frekari útfærslu á innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.
25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallar um heilbrigði. Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunn mannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks á því að njóta annarra mannréttinda. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð.
Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Má þar nefna Stjórnarskrá Íslands lög nr. 33/1944, samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu, alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningurinn um réttindi barnsins.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ
Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf. 25. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 14. mars 2023