„ÖBÍ lítur svo á að ákvæði frumvarpsins muni skerða aðgengi og þjónustu fatlaðs fólks að póstþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni, og leggur til að lögfestingu frumvarpsins verði frestað þar til kannað verði nánar hver áhrif þess muni hafa á fatlað fólk“
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019 (úrbætur á póstmarkaði)
Megininntak frumvarpsins er að póstþjónustuaðilum sé heimilt að setja upp bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli og þeir geti þar með hætt að bera út póst á heimili fólks. ÖBÍ bendir á að tilgangur frumvarpsins sé að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, en með því sé grunnþjónusta við almenning skert verulega sem bitni fyrst og fremst á fötluðu fólki og landsbyggðinni.
Í greinargerð kemur fram að „verði frumvarpið að lögum mun alþjónustuveitandi geta ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélag að setja upp bréfakassasamstæður í tilteknu póstnúmeri þannig að íbúar geti sótt póstinn sinn í göngufæri.“ Viðmið umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um göngufæri eru 400 metrar, en óvíst er hvort það sé sú skilgreining sem miðað er við hér. Samkvæmt könnun Maskínu segist aðeins þriðjungur svarenda búa í minna en 1 km fjarlægð frá næstu matvöruverslun (bls. 4), þar sem skilja má að helst sé áætlað að setja upp téðar bréfakassasamstæður.
Ein uppgefin ástæða frumvarpsins er að fækkun bréfasendinga en samhliða fjölgun pakkasendinga undanfarin ár. Í könnun Maskínu kemur fram að fólk er líklegra til að fá bréfsendingu með hækkandi aldri og ætla má að fatlað fólk sé líklegra til að nýta sér póstþjónustuna en ófatlað, og það er fólkið sem má síður við því að sækja póstinn út fyrir heimilið. En um 19% svarenda í könnun Maskínu með heimilistekjur lægri en 400 þúsund segja það henti þeim fremur eða mjög illa að sækja pakka í póstbox (bls. 44), sem gefur ákveðna vísbendingu um það.
Þó svo að hægt væri að setja upp bréfakassasamstæður í innan við 400 m fjarlægð frá hverju heimili í þéttbýli, sem mun miðast við íbúaþyrpingu a.m.k. 50 manns, þá er aðgengi fyrir fatlað fólk víðast hvar mjög slæmt. Ástand gatna og gangstétta þarf víða að laga, hæðarmunur er mikill, veður geta verið óblíð og við búum við ofankomu, kulda og hálku stóra hluta ársins.
Í greinargerð segir: „Koma þarf til móts við þá aðila sem ekki geta sótt póstinn sinn af einhverjum ástæðum, t.d. sökum fötlunar, aldurs eða veikinda en fyrir liggur heimild í gildandi lögum til að útfæra þjónustuna nánar í reglugerð, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 47. gr.“
Það er alls óvíst hvernig eigi að útfæra þjónustuna nánar og hvort og hvenær sú heimild verður nýtt. Hvern eigi að láta vita, hvernig fólk eigi að vita af þeim rétti, hvort það þurfi að meta sérstaklega og af hverjum að viðkomandi geti í raun ekki sótt póstinn sinn út fyrir heimilið, o.s.frv. Af gefnu tilefni má efast um að slík útfærsla í reglugerð muni virka vel í reynd, enda sé þá um að ræða viðbót sem ekki hefur verið hugsað fyrir frá upphafi en allar kerfisbreytingar þarf að hanna út frá aðstæðum viðkvæmustu hópanna til að þær bitni ekki á þeim þegar á hólminn er komið.
ÖBÍ lítur svo á að ákvæði frumvarpsins muni skerða aðgengi og þjónustu fatlaðs fólks að póstþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni, og leggur til að lögfestingu frumvarpsins verði frestað þar til kannað verði nánar hver áhrif þess muni hafa á fatlað fólk um þessa grunnþjónustu og hvernig hægt er að tryggja að ekki sé gengið á réttindi þess.
Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Bergur Þorri Benjamínsson
formaður aðgengishóps ÖBÍ
Póstþjónusta (úrbætur á póstmarkaði)
531. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 2. mars 2029.