Efni: Umsögn um drög að reglugerð um útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna.
ÖBÍ – réttindasamtök vilja koma eftirfarandi á framfæri um þá reglugerð sem hér er til umsagnar.
Þær tillögur sem fram koma í reglugerðardrögunum eru afar íþyngjandi fyrir einstaklinga sem þurfa t.a.m. að óska eftir læknisvottorði til að sanna tjón sitt í málum sem varða bótaskyld líkamstjón. Tryggingafélög gera kröfur um að tjónþolar leggi fram læknisvottorð til þess að sanna tjón sitt. Samkvæmt því sem kemur fram í drögunum að reglugerðinni er heimilislækni veitt sú heimild að neita að skrifa almennt heilsufarsvottorð og því geta einstaklingar neyðst til þess að leggja sjúkraskrá sína fram í heild sinni. Eins og gefur að skilja mun það auka líkurnar á að viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsufar þeirra berist óviðkomandi aðilum.
Jafnframt vilja ÖBÍ – réttindasamtök benda á að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) meta læknisfræðilega örorku/miska vegna bótaskyldra slysa skv. lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Sjúkratryggingar óska oft eftir vottorði heilsugæslulæknis um fyrra heilsufar slasaðs einstaklings. Mikilvægt er að SÍ geti áfram óskað eftir vottorðum um fyrra heilsufar. Verði sú leið ekki tryggð mun það auka líkurnar á að SÍ þurfi að óska eftir afriti af sjúkraskrá einstaklinga og fái þar með í hendurnar mun umfangsmeiri heilsufarsupplýsingar en nauðsynlegt er.
Að öðru leyti taka ÖBÍ – réttindasamtök undir það sem fram kemur í umsögnum lögmannsstofunnar FORTIS og Lögmannafélags Íslands um málið.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingafyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ
Drög að reglugerð um útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna.
Mál nr. 12/2023. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ 28. febrúar 2023.