Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu
Skógarhlíð 105
105 Reykjavík
Reykjavík, 27. apríl 2021
Umsögn ÖBÍ um (5.) breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands
Reglugerðarbreytingin sem hér er til umfjöllunar er tilraun til að koma böndum á útgjöld vegna heibrigðisþjónustu, og er það virðingarvert enda ber að fara vel með almannafé. Fjármagni í heilbrigðisþjónustu er naumt skammtað og því er mjög mikilvægt að samningar séu útbúnir þannig að hver króna nýtist sjúklingum sem best. Mikil ábyrgð liggur á herðum samningsaðila, hér Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sérgreinalækna, að hagsmuna sjúklinga sé gætt í hvívetna enda sitja þeir ekki við samningaborðið. Í umfjöllun Kveiks kemur fram að SÍ hafi ekki haldið nægilega vel utan um samningagerðina og eftirlit með gæðum og árangri þjónustunnar sem keypt er, og að sérgreinalæknar hafi gengið á lagið og sætta sig ekki við neitt aðhald.
Reglugerðarbreytingin sem nú er sett fram er þó algerlega óásættanleg og mun ekki ná markmiðum sínum heldur eingöngu koma niður á sjúklingum sjálfum, sem hlýtur þó að vera það sem á að forðast. Ef sérgreinalæknir innheimtir eða tekur önnur gjöld af sjúklingi en kveðið er á um í gjaldskrá SÍ þá mun sjúklingurinn ekki njóta niðurgreiðslu SÍ vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu. Honum er því hegnt tvöfalt.
Í umsögnum lækna kemur fram að þeir séu ekki háðir samningum við SÍ. Í þessu felst því miður önnur hótun.
Þeir sem eru háðir þessum samningum eru sjúklingar og þeir sem verða verst úti eru öryrkjar og láglaunahópar sem munu jafnvel þurfa að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu, enda er byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem eingöngu þeir efnameiri hafi aðgang að sérfræðilæknum.
Samningar SÍ við sérgreinalækna hafa verið lausir frá því í árslok 2018. Sérgreinalæknar hafa brugðið á það ráð að leggja ýmis viðbótargjöld á sjúklinga til að verja sig tekjumissi, sem er í hrópandi andstöðu við markmið greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðisþjónustu sem kveður á um hámarkskostnað sjúklinga. Eftir því sem tíminn líður sem greitt er samkvæmt gamalli gjaldskrá verður hlutdeild sjúklingsins hærri.
Ennfremur hafa sérfræðilæknar hótað að hætta að hafa milligöngu milli SÍ og sjúklinga, sem ÖBÍ, ASÍ og BSRB hafa lýst yfir að sé óþolandi tilraun til að beita sjúklingum fyrir sig sem vopni í baráttu þeirra við að ná samningi við SÍ.1
Öryrkjabandalag Íslands hvetur SÍ og sérgreinalækna til að hafa hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi og ganga til samninga með það að markmiði að veita landsmönnum jafnan aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem kostur er á hverjum tíma óháð efnahag2.
Minnt er á að skv. 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ber Íslandi að „sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga.“3
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,