Skip to main content
Frétt

Níu milljarða spurningin

By 28. nóvember 2018No Comments

Öryrkjabandalag Íslands kannast ekki við að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi varið níu milljörðum króna til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna, fullyrti í ræðustól Alþingis í vikunni að ríkisstjórninni væri alvara með kjör örorkulífeyrisþega því hefðu framlög til hópsins verið aukin um níu milljarða króna síðan hún tók við.

Til að gera langa sögu stutta, þá kannast öryrkjar hvorki við kjarabætur né aukinn kaupmátt eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir tók við völdum. Níu milljarða kjarabætur Katrínar Jakobsdóttur finnast hvergi.

ÖBÍ hefur því óskað upplýsinga hjá ráðuneytum og skrifstofu VG vegna fullyrðingar forsætisráðherra.

Fordæmalaus upplýsingabeiðni

Öryrkjabandalag Íslands hefur frá því að ummæli Katrínar féllu lagt sig fram um að finna þessar níu milljarða króna kjarabætur. Meðal annars hefur verið farið yfir gildandi fjárlög og frumvarp til fjárlaga næsta árs. Hvergi finnast kjarabætur Katrínar.

Öryrkjabandalag Íslands hefur því sent beiðni til þriggja ráðuneyta og skrifstofu Vinstri grænna, þar sem óskað er eftir útskýringum á því hvernig þessir fjármunir hafa bætt kjör öryrkja og hvernig komið sé til móts við tekjulægri hópa. Upplýsingabeiðni af þessu tagi er fordæmalaus hvað varðar ÖBÍ og í rauninni er sorglegt að okkur hafi ekki tekist að finna fullyrðingum forsætisráðherra nokkurn stað. Nánar er fjallað um málið hér að neðan og birt bréf Öryrkjabandalagsins til ráðuneytanna og skrifstofu VG.

Níu milljarða spurningin

Tilefni fyrirspurna bandalagsins til VG og ráðuneytanna eru fullyrðing sem birtist í föstudagspósti VG og efnislega sama fullyrðing forsætisráðherra í ræðustól Alþingis um að í síðustu fjárlögum og þeim sem nú liggja fyrir þinginu hafi framlög til bættra kjara öryrkja numið 9 milljörðum króna.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, í ræðustól Alþingis 26. nóvember síðast liðinn:

„Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega stöðu öryrkja. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það er þess vegna sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur aukið framlög. Ef fjárlögin verða að lögum hér eins og þau líta út nú eftir 2. umr. hafa framlög til þessa hóps aukist um 9 milljarða í tvennum fjárlögum sem lögð hafa verið fram af þessari ríkisstjórn. Það skiptir verulegu máli. Það er veruleg aukning til viðkvæmasta hóp samfélagsins 

[…]

Þessari ríkisstjórn er alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.“

Hvaða kjarabætur?

Við hjá ÖBÍ höfum velt vöngum yfir þessari fullyrðingu um 9 milljarða aukningu. Fólk kannast hreint ekki við neinar kjarabætur eða kaupmáttaraukningu sem væri hægt heimfæra upp á þessa upphæð sem forsætisráðherra nefndi á Alþingi og sem fram kom í föstudagspósti VG. Því var sérstaklega óskað eftir því að þetta yrði útskýrt nákvæmlega.

Satt að segja eru allir mjög undrandi á þessari yfirlýsingu forsætisráðherra og VG. ÖBÍ hefur farið í gegnum fjárlög síðasta árs og núverandi frumvarp. Hvergi finnast níu milljarða kjarabætur, hvergi finnst nokkuð sem komið hefur fram í bættri afkomu lífeyrisþega.

Hvað fundum við?

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er aukning á föstu verðlagi fjárlagafrumvarps 2017 4.494 m.kr. í bundin útgjöld vegna fyrirliggjandi útgjaldaskuldbindinga sem falla til á árinu 2018. Aðallega er þar um að ræða áætluð umframútgjöld ársins 2017, einkum vegna fjölgunar lífeyrisþega og hins vegar útgjöld vegna áætlaðrar fjölgunar milli ára.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019, eftir aðra umræðu, er hækkunin 4.566 m.kr. sem skiptast þannig að 2.900 m.kr. eru vegna kerfisbreytinga, 70 m.kr. vegna NPA og 1.596 m. kr. í bundin útgjöld, líklegast vegna fjölgunar lífeyrisþega, eða vanáætlunar ársins 2018, en það er þó ekki tilgreint í frumvarpinu.

Ekkert af þessu bætir kjör örorkulífeyrisþega. Þetta eru meira eða minna bundin útgjöld, og vel að merkja, þau útgjöld sem nú eru til umræðu í frumvarpi til fjárlaga næsta árs, eru enn sem komið er bara töluð orð og jafnvel ekki það.

Ósk um upplýsingar

Þar sem Öryrkjabandalag Íslands finnur hvergi kjarabæturnar sem forsætisráðherra fullyrti um, var ákveðið að óska eftir frekari upplýsingum um málið. Sendar hafa verið upplýsingabeiðnir til skrifstofu VG og til forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og félags- og jafnréttismálaráðuneytis. Í tilviki ráðuneytanna var fyrirspurnin send upplýsingafulltrúum, með afriti til ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna ráðherra.

Fyrirspurnir ÖBÍ 

Til Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs:

Heil og sæl,

Við óskum þess að skrifstofa VG útskýri fyrir okkur fullyrðingu sem fram kom í svonefndum Föstudagspósti VG á dögunum. Til hans er vitnað í vefritinu Miðjan.is: http://www.midjan.is/niu-milljordum-meira-til-oryrkja/

Þar segir: „„Í þessum fyrstu tvennu fjárlögum hafa framlög til öryrkja aukist um 9 milljarða,“ segir í  Föstudagspósti Vg.“

Við viljum gjarnan fá nákvæmar útskýringar á því hvernig þessu fé hefur verið varið í þágu örorkulífeyrisþega. Með hvaða hætti það hefur skilað sér til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta og aukins kaupmáttar. Það yrði gleðilegt ef skrifstofa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs gæti haft hraðar hendur í þessu máli.

Til forsætisráðuneytisins:

Heil og sæl,

Við óskum þess að forsætisráðuneytið skýri fyrir Öryrkjabandalagi Íslands fullyrðingu forsætisráðherra í ræðustól Alþingis 26. nóvember sl. (sjá. https://www.althingi.is/altext/raeda/149/rad20181126T151822.html)

Þar sagði forsætisráðherra: „Þessari ríkisstjórn er alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.“

Við viljum gjarnan fá nákvæmar útskýringar á því hvernig þessum 9 milljörðum hefur verið varið í þágu örorkulífeyrisþega. Með hvaða hætti þeir hafa skilað sér til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta og aukins kaupmáttar. Það yrði gleðilegt ef forsætisráðuneytið gæti varpað skýru ljósi á þetta mál og haft hraðar hendur.

Til fjármála- og efnahagsráðuneytisins:

Heil og sæl,

Við óskum þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið skýri fyrir Öryrkjabandalagi Íslands fullyrðingu forsætisráðherra um útgjöld ríkisins í ræðustól Alþingis 26. nóvember sl. (sjá. https://www.althingi.is/altext/raeda/149/rad20181126T151822.html)

Þar sagði forsætisráðherra: „Þessari ríkisstjórn er alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.“

Við viljum gjarnan fá nákvæmar útskýringar á því hvernig þessum 9 milljörðum hefur verið varið í þágu örorkulífeyrisþega. Með hvaða hætti þeir hafa skilað sér til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta og aukins kaupmáttar. Það yrði gleðilegt ef fjármála- og efnahagsráðuneytið gæti varpað skýru ljósi á þetta mál og haft hraðar hendur.

Til félags- og jafnréttismálaráðuneytisins:

Heil og sæl,

Við óskum þess að félags- og jafnréttismálaráðuneytið skýri fyrir Öryrkjabandalagi Íslands fullyrðingu forsætisráðherra um útgjöld ríkisins í ræðustól Alþingis 26. nóvember sl. (sjá. https://www.althingi.is/altext/raeda/149/rad20181126T151822.html)

Þar sagði forsætisráðherra: „Þessari ríkisstjórn er alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga.“

Við viljum gjarnan fá nákvæmar útskýringar á því hvernig þessum 9 milljörðum hefur verið varið í þágu örorkulífeyrisþega. Með hvaða hætti þeir hafa skilað sér til örorkulífeyrisþega í formi kjarabóta og aukins kaupmáttar. Það yrði gleðilegt ef félags- og jafnréttismálaráðuneytið gæti varpað skýru ljósi á þetta mál og haft hraðar hendur.