Skip to main content
Frétt

Krafa um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga afnumin

By 14. desember 2021No Comments
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Sjúkratryggingum Íslands að fella brott ákvæði úr rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga um tveggja ára starfsreynslu sem skilyrði fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

Starfshópur vinnur nú að greiningu á þjónustu talmeinafræðinga og hvernig henni verði best hagað til framtíðar með hliðsjón af lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Ný heildstæð samningsmarkmið um þessa þjónustu verða byggð á vinnu starfshópsins og er stefnt að því að SÍ og talmeinafræðingar geti hafið viðræður um nýjan samning á grundvelli þeirra eftir áramót.

Í frétt á vef stjórnarráðsins er haft eftir heilbrigðisráðherra:

„Við sem samfélag berum skyldur gagnvart þeim sem þurfa á þjónustunni að halda sem að langstærstum hluta eru börn. Það skiptir miklu að hægt sé að veita þessum börnum þjónustu eins fljótt og kostur er. Annars er viðbúið að vandi þeirra aukist og verði alvarlegri eftir því sem tíminn líður sem eykur enn frekar á þjónustuþörfina.“

Gert er ráð fyrir að unnt verði að fella brott umrætt ákvæði í byrjun næsta árs.

Talmeinafræðingar starfa á grundvelli rammasamnings sem tók gildi 1. nóvember árið 2017 með gildistíma til 31. október 2019. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið framlengdur með samþykki beggja aðila um einn mánuð í senn. Ekki hefur náðst saman um nýjan samning en sem fyrr segir vinnur starfshópur nú að greiningu á þjónustu talmeinafræðinga og gerð heildstæðra tillagna um framtíðarfyrirkomulag hennar. Hópnum er ætlað að skila heilbrigðisráðherra tillögum sínum eigi síðar en 20. desember næstkomandi.