Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
101 Reykjavík
Reykjavík, 4. mars 2022
Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ, leggur áherslu á að ný Breiðafjarðarferja sé aðgengileg fötluðu fólki. Ennfremur þarf að gera breytingar á hafnaraðstöðu, þjálfa starfsfólk og uppfæra upplýsingar til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks.
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, sem Ísland hefur fullgilt, skuldbinda aðildarríkin sig til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin“ , þar á meðal „að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: 10 a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“
Viðaukar við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó voru innleiddir í íslenskan rétt með breytingu á siglingalögum nr. 34/1985 sbr. lög nr. 12/2016 þann 1. mars 2016 og reglugerð 536/2016. Þar er kveðið á um réttindi fatlaðra eða hreyfihamlaðra einstaklinga um breytingar eða endurgreiðslur á ferð, aðstoð og svo þjálfun starfsmanna. Með innleiðingu þessara viðauka fylgir jafnframt sú ábyrgð að fylgja öðrum ákvæðum ESB reglugerðarinnar, þar sem segir m.a. í 7. mgr. aðfararorða:
„In deciding on the design of new ports and terminals, and as part of major refurbishments, the bodies responsible for those facilities should take into account the needs of disabled persons and persons with reduced mobility, in particular with regard to accessibility, paying particular consideration to ‘design for all’ requirements. Carriers should take such needs into account when deciding on the design of new and newly refurbished passenger ships in accordance with Directive 2006/87/EC of the European Parliament and of the Council of 12 December 2006 laying down technical requirements for inland waterway vessels and Directive 2009/45/EC of the European Parliament and of the Council of 6 May 2009 on safety rules and standards for passenger ships.“
Frá innleiðingu á því að gæta að því að hanna og byggja hafnarmannvirki út frá ákvæðum algildrar hönnunar. Jafnframt ber að gæta þess við breytingar og kaup á farþegabátum og ferjum að ákvæði algildrar hönnunar séu virt.
Í finnskri reglugerð um aðgengi að og í farþegabátum sem tók gildi 1. júli 2017 er gerð krafa um til að hafa leyfi til siglinga skuli allir farþegabátar vera aðgengilegir fyrir alla í síðasta lagi 1. janúar 2020. Æskilegt er að sambærilegar kröfur séu gerðar hérlendis. Þá má benda á að í finnsku reglugerðinni er að finna ítarlegar aðgengiskröfur.
Bent er á þau aðgengisviðmið sem koma fram í leiðbeiningarblaði MGN 306 frá 1996: „Recommendation on the design and operation of passenger ships to respond to elderly and disabled persons’ needs.“, og í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (nr. 2009/45/EC).
Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir. formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri